Stjórn handknattleiksdeildar Fram kom saman í hádeginu vegna kærumálsins á hendur Valsmönnum í bikarkeppni karla. Ákveðið var að halda áfram með málið og það fer því sína leið í dómskerfinu.
Reynir Stefánsson varaformaður handknattleiksdeildar Fram staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu. „Eftir að hafa rætt við okkar álitsgjafa er það samdóma álit að við séum með skothelt mál í höndunum og munum halda því áfram," sagði Reynir en vildi ekki ræða málið að öðru leyti.
Valsmenn hafa fengið frest til hádegis á morgun til að skila greinargerð í málinu.
Valur vann Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar á sunnudaginn. Fram kærði á þeim forsendum að Markús Máni Michaelsson Maute, sem tók fram skóna og lék með Val, hefði ekki verið með gildan leikmannasamning.
Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag var leikmannasamningur Markúsar sendur skrifstofu HSÍ með faxi nokkrum stundum fyrir leikinn á Hlíðarenda og þar með telja Valsmenn sig hafa verið í fullum rétti með að tefla honum fram.