Atli Hilmarsson, þjálfari karlaliðs Akureyrar, segist skulda Akureyringum bikarmeistaratitil í handknattleik. Það er sá titill sem honum tókst ekki að vinna á þeim fimm árum sem hann stýrði liði KA og gerði það m.a. að Íslandsmeistara snemma á öldinni.
Akureyri leikur á morgun til úrslita við Val í Eimskipsbikarkeppni karla í handknattleik. Flautað verður til leiks í Laugardalshöllinni kl. 16.
Atli segir ennfremur að það sé gaman að fá tækifæri til þess að skrifa sögu Akureyrar handboltafélags sem á sér stutta sögu.
Þrátt fyrir að fæstir leikmanna Akureyrar hafi leikið áður til úrslita í bikarkeppninni segist Atli ekki óttast að spennustig leikmanna sinna verði ekki rétt. Liðið hafi sýnt það í vetur ekki sé ástæða til óttast.
Ástand leikmanna Akureyrar er fínt að sögn Atla og allir þeir sem leikið hafa fyrir liðið í vetur verða með í leiknum við Val. Hreinn Þór Hauksson hafi jafnað sig á meiðslum og sömu sögu er að segja af landsliðsmanninum Oddi Gretarssyni.
Atli stýrði kvennaliði Stjörnunnar til sigurs í bikarkeppninni fyrir tveimur árum. Þá varð hann bikarmeistari sem leikmaður með FH fyrir 19 árum.