Björgvin Páll er úr leik

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik gegn Þjóðverjum í Laugardalshöll á …
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik gegn Þjóðverjum í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið. Hann getur ekki leikið með í síðari leiknum á morgun vegna meiðsla. Reuters

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður, leikur ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik gegn Þjóðverjum á morgun. Hann meiddist undir lok æfingar landsliðsins í Bielefeld í hádeginu. Sveinbjörn Pétursson hefur verið kallaður inn í landsliðshópinn og kemur hann til Þýskalands rétt eftir hádegi á morgun.

Undir lok æfingar landsliðsins í hádeginu í dag fékk Björgvin Páll fast boltaskot í vinstra augað. Um leið var ljóst að málið gæti verið alvarlegt og var farið með hann til augnlæknis rakleitt eftir æfinguna. Þar kom í ljós að blætt hafði inn á augað. Vonir standa til þess að blæðingin sé ekki mikil né alvarleg, að sögn Einars Þorvarðarsonar, framkvæmdastjóra Handknattleikssambandsins og fararstjóra íslenska landsliðsins. „Björgvin fer aftur í skoðun hjá augnlækni á morgun og þá skýrist staðan betur," sagði Einar í samtali við mbl.is fyrir fáeinum mínútum. Einar sagði jafnframt að ekki kæmi til greina að tefla á tvær hættur og tefla Björgvini fram í leiknum.

Um leið og þetta lá fyrir voru gerðar ráðstafanir til þess að Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar, komi til móts við íslenska landsliðið sem mætir Þjóðverjum í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í Halle Westfalen síðdegis á morgun. Sveinbjörn er staddur heima á Íslandi en hann var annar tveggja leikmanna landsliðshópsins sem varð eftir þegar íslenski hópurinn hélt til Þýskalands í gærmorgun.

Björgvin Páll átti stórleik gegn Þjóðverjum í fyrri leik þjóðanna í undankeppninni í Laugardalshöll á síðasta miðvikudag og varði 25 skot. Þótt alltaf komi maður í manns stað er ljóst að brottfall Björgvin Páls úr hópnum er mikið áfall fyrir íslenska landsliðið því eftir leikinn á miðvikudaginn í óttuðust Þjóðverjar Björgvin verulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka