Guðmundur sleginn yfir meiðslum Björgvins (myndskeið)

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, var slegin yfir alvarlegum meiðslum sem markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson varð fyrir á æfingu íslenska landsliðsins í handknattleik í hádeginu í dag, rétt rúmum sólarhring áður en flautað verður til leiks í síðari viðureign Íslendinga og Þjóðverja í undankeppni EM í Halle.

Guðmundur sagði undirbúning landsliðsins hafa gengið vel fram til þessa. „En nú er hugur minn við meiðsli Björgvins," sagði Guðmundur í mjög stuttu viðtali við mbl.is eftir æfinguna í dag.

Farið var með Björgvin rakleitt til læknis eftir æfinguna og þar kom í ljós að blætt hafði inn á vinstra augað eftir að hann fékk þungt högg á það undir lok æfingarinnar. Hann tekur þar með ekki þátt í leiknum við Þjóðverja á morgun. Hreiðar Levy Guðmundsson mun því vera í byrjunarliðinu. Kallað hefur verið á Sveinbjörn Pétursson, markvörð Akureyrar, inn í landsliðið og kemur hann til móts við landsliðshópinn eftir hádegið á morgun.

Flautað verður til leiks í Gerry Weber íþróttahöllinni kl. 16.45 á morgun að íslenskum tíma. 

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert