Viðureign Þjóðverja og Íslendinga í undankeppni EM í handknattleik í Halle í dag verður sú 71. á milli A-landsliða karla þessara þjóða. Sú fyrsta var 29. nóvember 1966 í Laugardalshöll. Þjóðverjar unnu, 23:20.
Af þessum 70 leikjum sem eru að baki hefur þýska landsliðið unnið 40, sex sinnum hefur orðið jafntefli en íslenska liðið farið með sigur í býtum í 24 skipti, þar af 11 sinnum undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar núverandi landsliðsþjálfara. Hann hefur stýrt íslenska landsliðinu ellefu sinnum til sigurs á Þjóverjum, tvisvar mátt sætta sig við jafntefli en aðeins fjórum sinnum tapað.
Þess má til gamans geta að þýska landsliðið hefur ekki unnið það íslenska á Íslandi í 19 ár. Eftir leikinn á síðasta miðvikudag veltu þýskir fjölmiðlar því fyrir sér hvort leikir við Íslendinga á Íslandi væri fyrirfram tapaðir í ljósi síðustu ára.
Flautað verður til leiks í Gerry Weber íþróttahöllinni í Halle Westfalen klukkan 16.45 í dag. Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. Þar birtast einnig viðtöl við leikmenn og þjálfara íslenska landsliðsins fljótlega að leik loknum.