Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara HK, biður stuðningsmenn liðsins afsökunar á slökum leik þess í fyrri hálfleik gegn Akureyri í N1-deildinni í handknattleik í kvöld. HK-liðið hafi hinsvegar sýnt aðra hlið í síðari hálfleik og náð að hleypa lífi leikinn og veitt Akureyri nokkra keppni.
Akureyri vann leikinn sem fram fór í Digranesi, 32:29, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir, 21:11, í hálfleik. Síðari hálfleikur var mikið betri hjá HK og segir Kristinn hann e.t.v. vera eitthvað sem liðið geti byggt á í næstu tveimur leikjum en HK á í harðri baráttu við Hauka um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni.