Íslendingaliðin Kiel og Rhein-Neckar Löwen stigu stórt skref í átt að 8 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik um helgina. Evrópumeistarar Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, fögnuðu sjö marka sigri gegn Kolding í Danmörku, 36:29, og strákarnir hans Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen gerðu sér lítið fyrir og lögðu Croatia Zabreb í Króatíu í gær, 31:28.
„Þetta var frábær sigur. Lið Croatia var taplaust á heimavelli í Meistaradeildinni fyrir leikinn en við spiluðum frábæra vörn. Þá leystum við sóknarleikinn vel. Við erum langt frá því að vera komnir áfram. Við verðum að halda vel á spilunum í seinni leiknum því þetta er stórhættulegt lið með reynslubolta eins og Ivano Balic innanborðs,“ sagði Guðmundur Guðmundsson við Morgunblaðið í gær.
Ólafur Stefánsson skoraði 7 af mörkum Löwen en markahæstur var Uwe Gensheimer með 10 mörk. „Óli var í heimsklassa. Hann sýndi frábær tilþrif í vörn, sókn og hraðaupphlaupunum og hann var eins og góður og hann getur verið,“ sagði Guðmundur.