Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, landsliðskona í handknattleik, skrifaði í dag undir nýjan samning við Val til tveggja ára og hefur þar með ákveðið að leika áfram hér á landi á næsta tímabili.
Á vef Vals segir að hún hafi fengið nokkur tilboð erlendis frá, enda var Anna áberandi í íslenska landsliðinu í úrslitakeppni EM í Danmörku í vetur.
„Eftir að hafa velt öllum möguleikum fyrir mér þá langar mig að halda áfram hér hvað sem framtíðin ber í skauti sér enda aðstæður hér með því besta sem gerist," segir Anna á vef Valsmanna.
Hún leikur einmitt þessa stundina með Val gegn Fram í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn en viðureign liðanna er nýhafin á Hlíðarenda.