Uppgjörið er framundan

Bjarki Már Elísson, HK, mætir Sveinbirni Péturssyni, markverði Akureyrar í …
Bjarki Már Elísson, HK, mætir Sveinbirni Péturssyni, markverði Akureyrar í oddaleik í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Oddaleikir undanúrslita N1-deildar karla í handknattleik fara fram í kvöld þegar Akureyri fær HK í heimsókn og Fram sækir FH heim í Kaplakrika. Flautað verður til beggja leikja klukkan 19.30.

Sigurlið leikjanna í kvöld mætast í allt að fimm leikja rimmu um Íslandsmeistaratitilinn sem hefst eftir rúma viku. Í báðum viðureignum kvöldsins verður leikið til þrautar, ef jafnt verður eftir hefðbundinn leiktíma verður gripið til framlengingar.

Deildarmeistarar Akureyrar töpuðu illa fyrir HK, 31:23, í öðrum leik liðanna í Digranesi á laugardaginn eftir að hafa unnið á heimavelli á fimmtudagskvöldið 26.24.  Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, sagði í samtali við Morgunblaðið eftir viðureignina í Digranesi að um hafi verið að ræða slakasta leik sinna manna á keppnistímabilinu. 

Mikil eftirvænting ríkir á Akureyri vegna leiksins sem fram fer í Íþróttahöllinni og má reikna með að bekkurinn verði þéttsetin. HK-ingar ætla að fjölmenna norður og m.a. hefur verið skipulögð hópferð með flugi norður í dag.

Mikið verður um dýrðir í Kaplakrika þegar FH-ingar taka á móti Fram. Tæplega 1.400 áhorfendur voru að fyrstu viðureign liðanna í Kaplakrika á síðasta fimmtudag og um 800 áhorfendum mættu í Framheimilið á laugardag í öðrum leik liðanna. Reiknað er með mörgum áhorfendum á leikinn í kvöld og m.a. FH-ingar skorað á Framara að fylla gestastúkuna í Kaplakrika en hún tekur á milli 1.300 og 1.400 áhorfendum.

Eins og venjulega þá bjóða FH-ingar upp á góða dagskrá í tengslum við leikinn þar m.a. verða grillaðir hamborgarar og pylsur, tónlistaratriði og skemmtun fyrir börnin auk handboltaleiksins sem er vitanlega aðalatriðið.

FH vann fyrsta leikinn í rimmunni við Fram, 29:22. Fram náði að snúa við taflinu á laugardaginn og vinna með einu marki á heimavelli, 27:26. 

Að vanda verður mbl.is með blaðamenn á báðum leikjum. Þeir munu uppfæra stöðuna í þeim með reglulegu millibili auk þess að taka viðtöl við leikmenn og þjálfara sem birtast fljótlega eftir að leikjunum lýkur.

Ólafur Guðmundsson, FH, sækir að Jóhanni Karli Reynissyni, Framara, í …
Ólafur Guðmundsson, FH, sækir að Jóhanni Karli Reynissyni, Framara, í fyrstu viðureign liðanna á síðasta fimmtudagskvöld í Kaplakrika. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert