Ólafur innsiglaði FH sigur

Ólafur Guðmundsson FH-ingur sækir að vörn Akureyrar í leiknum í …
Ólafur Guðmundsson FH-ingur sækir að vörn Akureyrar í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

FH er komið með tvo vinninga í einvígi sínu við Akureyri um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eftir tveggja marka sigur í kvöld, 28:26, að viðstöddum 2.500 áhorfendum í frábærri stemningu í Kaplakrika.

Ólafur Gústafsson tryggði FH sigurinn þremur sekúndum fyrir leikslok. Heimir Örn Árnason átti möguleik á að jafna metin, 27:27, þegar 25 sekúndur voru eftir en hann kastaði boltanum framhjá úr opnu færi af línunni.

FH komst fjórum mörkum yfir, 25:21, þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en Akureyringar neituðu að játa sig sigraða og náðu að jafna metin, 25:25 og aftur 26:26.  

Liðin eigast við á ný í íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 16 á sunnudag og með sigri þá getur FH tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Ásbjörn Friðriksson skoraði átta mörk fyrir FH, Ólafur Gústafsson og Baldvin Þorsteinsson fimm hvor.
Oddur Gretarsson skoraði 11 mörk fyrir Akureyri, Guðmundur Hólmar Helgason og Bjarni Fritzson fjögur hvor.

55. Akureyri hefur jafnað metin eftir að hafa skorað fjögur mörk í röð, staðan 25:25. Allt á suðupunkti í Krikanum með 2.500 áhorfenda.

50. Akureyri tekur leikhlé. Liðið þremur mörkum undir, 24:21, og manni færra eftir Heimir Erni var vísað af leikvelli fyrir mótmæli.

45. Ólafur Guðmundsson var að koma FH yfir, 22:21, með þrumuskoti og Baldvin félagi hans að klúðra hraðaupphlaupi.

40. Leikurinn jafn og skemmtilegur áfram, staðan jöfn, 20:20. Sveinbjörn virðist vera að vakna í marki Akureyringar eftir daufan leik í fyrri hálfleik.

33. Síðari hálfleikur fer líflega af stað. FH er yfir 18:16.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks í jöfnum og skemmtilegum leik þar sem vart má á milli sjá. Staðan er 15:14, FH í vil.
Ásbjörn Friðriksson og Baldvin Þorsteinsson hafa skorað fimm mörk hvor fyrir FH. Daníel Andrésson hefur varið 10 skot í marki FH.
Oddur Grétarsson, Guðmundur Hólmar og Bjarni Fr., hafa skorað þrjú mörk hver fyrir Akureyri. Sveinbjörn hefur varið fjögur skot.

22. Akureyringar taka leikhlé marki yfir. Þeir verða manni færri næstu 55 sek. en Bjarna Fritz var vísað af leikvelli áðan. Staðan er 11:12, fyrir Akureyri.

18. Akureyri marki yfir, 10:9, og eru að hefja sókn eftir að Sveinbjörn varði. Eftir slæma kaflan áðan þar sem FH komst 7:3 yfir svaraði Akureyri með fimm mörkum.

13. Akureyringar hafa ekki lagt árar í bát og skorað þrjú mörk í röð, staðan 7:6, fyrir FH.

10. FH-ingar nýttu sér liðsmuninn og skoruðu þrjú mörk gegn engu einum fleiri. Baldvin Þorsteinsson var að bæta við sjöunda markinu og fjórða marki sínu, staðan er 7:3, FH í vil.

8. FH komst í 3:1 en Akureyringar voru snöggir að jafna. Verið var að vísa Guðlaugi Arnarssyni leikmanni Akureyrar af leikvelli í 2 mín. 

2. Leikurinn fer fjörlega af stað. Hvort lið hefur skorað eitt mark. Baldvin Þorsteinsson kom FH yfir en Bjarni Fritzson jafnaði metin.

Hátt í 2.000 áhorfendur mættir 10 mínútum fyrir leikinn. Nær alveg fullt orðið í FH-stúkunni. Útlit fyrir frábæra stemningi í Kaplakrika í kvöld.

Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson dæma leikinn í kvöld.

Eftirlitsmaður er Guðjón L. Sigurðsson.

FH vann fyrsta leik liðanna á nyrðra á þriðjudagskvöldið, 22:21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert