FH og Akureyri áttust við í fjórða skipti í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði klukkan 19:30. FH sigraði 28:24 og samtals 3:1 og er því Íslandsmeistari 2011. FH varð síðast Íslandsmeistari árið 1992 og þá einnig undir stjórn Kristjáns Arasonar.
Dómgæslu önnuðust þeir Anton Pálsson og Hlynur Leifsson.
Markahæstir:
FH: Ólafur Guðmundsson 7, Ásbjörn Friðriksson 6.
Akureyri: Guðmundur Hólmar Helgason 7, Heimir Árnason 5.
60. mín: Leik lokið. FH sigraði 28:24 og samtals 3:1 í rimmunni. FH-ingar voru sterkari á lokamínútunum og Ólafur Gústafs innsiglaði sigurinn með marki þegar ein og hálf var eftir og náði þá þriggja marka forskoti.
58. mín: Staðan er 25:23 fyrir FH og Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar tekur leikhlé. Atli Rúnar Steinþórsson hefur skorað tvö mörk í röð af línunni fyrir FH.
55. mín: Staðan er 23:22 fyrir FH og Akureyri með boltann. Ólafur Gústafsson var að skora.
52. mín: Staðan er 21:21. Heimir Árna jafnaði en hann hefur verið drjúgur í síðari hálfleik. Hreinn Hauksson var að fá brottvísun og FH-ingar verða manni fleiri næstu 2 mínúturnar.
51. mín: Staðan er 21:20 fyrir FH. Dæmið snérist við og nú missti FH tvo menn af velli. Síðustu mínúturnar gætu orðið mjög spennandi.
47. mín: Staðan er 21:18 fyrir FH. Síðustu mínútur hafa verið skrautlegar því Hörður Fannar Sigþórsson og Heimir Árna létu báðir reka sig út af og Akureyringar voru því tveimur færri. FH nýtti sér það að sjálfsögðu þrátt fyrir að Sveinbjörn hafi bæði varið vítakast og hraðaupphlaup.
44. mín: Staðan er 18:18. Leikur Akureyringa er að lagast. Varnarjaxlinn Hreinn Hauksson hefur nú verið settur til höfuðs Ólafi Guðmunds og gengur ágætlega. Ekki veitir af því Ólafur hafði skorað 7 mörk í leiknum.
40. mín: Staðan er 17:15 fyrir FH sem er enn með frumkvæðið. Akureyringar þurfa eftir sem áður að hafa mikið fyrir sínum mörkum og uppstilltur sóknarleikur þeirra er frekar vandræðalegur.
35. mín: Staðan er 16:15 fyrir FH. Hafnfirðingar byrjuðu vel í síðari hálfleik og náðu þriggja marka forskoti en Akureyri er búið að skora tvö í röð.
30. mín: Staðan er 13:11 fyrir FH að loknum fyrri hálfleik. FH-ingar hafa heilt yfir verið sterkari og verðskulda þessa forystu. Fleiri leikmenn eru að leggja í púkkið hjá þeim heldur en hjá Akureyri. Óafur Guðmundsson hefur verið kraftmikill og er með 5 mörk fyrir FH en Guðmundur Hólmar er einnig með 5 hjá Akureyri. Sveinbjörn hefur verið þeirra besti maður og er búinn að verja 15 skot.
23. mín: Staðan er 9:9. Guðmundur Hólmar Helgason er búinn að skora síðustu fjögur mörk Akureyringa. Markaskorið hefur dreifst ágætlega hjá FH. Pálmar var að fara af leikvelli og í hans stað er kominn Daníel Freyr Andrésson.
19. mín: Staðan er 7:6 fyrir Akureyri sem hefur skorað þrjú mörk í röð og var að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum.
15. mín: Staðan er 6:4 fyrir FH en varnarleikur liðsins er mjög góður. Fyrirliðinn Sigurgeir Árni Ægisson var þó að fá fyrstu brottvísun FH-inga.
11. mín: Staðan er 4:3 fyrir FH. Heimir Árnason var að fá fyrstu brottvísunina í leiknum. Sveinbjörn hefur byrjað með þvílíkum látum í markinu og hefur þegar varið 8 skot.
8. mín: Staðan er 3:3. FH-ingar byrja vel í vörninni en að sama skapi hefur Sveinbjörn byrjað vel í marki Akureyrar.
2. mín: Staðan er 1:0 fyrir FH. Akureyringurinn Ásbjörn Friðriksson skoraði fyrsta markið. Logi Geirsson byrjar inn á hjá FH en þó eingöngu í vörninni, nánar tiltekið í vinstra horninu en Baldvin Þorsteins spilar bakvörð í 6-0 vörn FH. Akureyri byrjar einnig í 6-0 vörn. Liðin sýna því markvörðum sínum traust en Pálmar Pétursson byrjar í markinu hjá FH og Sveinbjörn Pétursson hjá Akureyri að venju.
Kl 19:25. FH varð síðast Íslandsmeistari árið 1992 en Akureyringar hafa aldrei orðið Íslandsmeistarar í meistaraflokki eftir að Þór og KA sameinuðust.
Kl 19:20. Húsið er svo gott sem orðið fullt þó enn séu nokkrar mínútur í að leikurinn hefjist.