Uppselt er á úrslitaleik AG Köbenhavn og Bjerringbro/Silkeborg um danska meistaratitilinn í handknattleik karla sem fram fer á knattspyrnuleikvanginum Parken í Kaupmannahöfn á laugardaginn. Alls hafa selst rúmlega 34.000 aðgöngumiðar og munu þeir síðustu hafa selst fyrir hádegið.
Ljóst er að áhorfendamet verður sett á leik félagsliða í Parken á laugardaginn en núverandi met 30.925 áhorfendur sem sáu viðureign Lemgo og Kiel á fótboltavellinum í Schalke fyrir tæpum sjö árum.
Ýmsir töldu Jesper Nielsen, eiganda AG, ætla sér um of þegar hann ákvað síðla í vetur að leigja Parken með von um að fá yfir 30 þúsund áhorfendur á leik sem hann var ekki viss um að hans lið myndi spila. Allar hans áætlanir hafa gengið eftir.
Tveir Íslendingar taka þátt í leiknum á laugardaginn, Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson, en báðir leik þeir með AG sem getur orðið meistari með sigri eða jafntefli í leiknum. AG vann fyrsta eða fyrri leik liðanna í Silkeborg á síðasta laugardag með tveggja marka mun, 29:27.
Arnór er fyrirliðið AG og mun það kom í hans hlut að taka við danska meistarabikarnum eftir leikinn gangi áætlanir AG-liðsins eftir.
Mikið verður um dýrðir í Parken í kringum leikinn. Boðið verður upp á tónleika fyrir leikinn og í hálfleik. Þá verður settur upp vísir að tívolíi á staðnum og fleira gert til þess að skapa góða stemningu fyrir alla fjölskylduna.
Þá verður sett upp stór sýningartjald nærri vellinum þar sem reiknað er með að allt að fjögurþúsund manns komi saman og fylgist með leiknum.
RÚV hefur tryggt sér sýningarrétt á leiknum í Parken og verður með hann í beinni útsendingu. Flautað verður til leiks í Parken kl. 14.