Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson létu báðir að sér kveða þegar lið þeirra AG Köbenhavn varð í dag danskur meistari í handknattleik með því að sigra Bjerringbro/Silkeborg, 30:21, frammi fyrir metfjölda áhorfenda á Parken. Þetta var seinni leikur liðanna en AGK vann þann fyrri 29:27.
Arnór var markahæstur í liði AGK í dag með 5 mörk og Snorri Steinn skoraði fjögur. AGK missti markvörð sinn Kasper Hvidt af velli með rautt spjald strax á þriðju mínútu en það kom ekki að sök, enda Normaðurinn Steinar Ege varamarkvörður liðsins, og sigurinn var aldrei í mikilli hættu. Ege varði 20 skot í leiknum.
Arnór er fyrirliði meistaranna og það kemur því í hans hlut að lyfta bikarnum fyrstur manna.
36.651 áhorfendur voru á Parken og hafa aldrei fleiri áhorfendur horft á leik félagsliða í handbolta.