Íslenska landsliðið í handknattleik vann Letta, 29:25, í viðureign þjóðanna í undankeppni Evrópumótsins í Dobele í Lettlandi en var að ljúka. Ísland var yfir í leiknum ef undan eru skildar fyrstu mínúturnar og hafði sex marka forskot í hálfleik, 17:11.
Lettar sóttu mjög í sig veðrið í síðari hálfleik. Helmuth Tihanovs kom í mark þeirra og varði vel. Lettar náðu að minnka forskot Íslands niður í eitt mark í þrjú skipti, 20:19, þegar 15 mínútur voru til leiksloka, og í tvígang eftir það. Þá bætti íslenska liðið í á öllum vígstöðvum og m.a. varði Björgvin Páll Gústavsson vel á lokakaflanum.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með níu mörk. Róbert Gunnarsson skoraði sex mörk og Alexander Petersson fjögur. Þeir voru markahæstir.
Björgvin Páll Gústavsson varði 14 skot í markinu, þar af eitt vítakast. Níu af skotunum varði hann í síðari hálfleik, flest á síðasta stundarfjórðungnum.
Íslenska landsliðið kemur heim á morgun og leikur við Austurríki í Laugardalshöllinni á sunnudaginn. Það leik verður íslenska liðið að vinna til þess að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Serbíu í upphafi næsta árs.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Austurríki er með 7 stig í riðlinum, Ísland 6, Þýskaland 5 en Lettland ekkert. Austurríki og Þýskaland mætast kl. 18.15 í Innsbruck. Þetta er næstsíðasta umferðin en tvö efstu liðin komast í lokakeppnina í Serbíu í janúar. Ísland mætir Austurríki í lokaumferðinni í Laugardalshöll á sunnudaginn.