Þjóðverjar lögðu nágranna sína í Austurríki, 28:20, í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í Innsbruck í kvöld en þjóðirnar eru með Íslendingum í riðli undankeppninni. Þetta þýðir að íslenska landsliðið mætir Austurríki í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumeistaramótinu í Laugardalshöll á sunnudaginn kl. 16.30.
Austurríki og Þýskaland eru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina í riðlinum með sjö stig. Ísland hefur sex stig og Lettar ekkert. Sigurinn í kvöld tryggði Þjóðverjum keppnisrétt á EM í janúar.
Austurríki nægir stig í Laugardalshöll á sunnudaginn gegn Íslendingum til þess að komast í lokakeppnina en íslenska landsliðið verður að vinna til þess að vera með í Serbíu í janúar nk, en þar fer keppnin fram.
Þjóðverjar voru yfir allan leikinn við Austurríkismenn í Innsbruck í kvöld. Sjö marka munur var í hálfleik, 15:8. Austurríkismenn bitu frá sér í fyrri hluta síðari hálfleik og voru aðeins tveimur mörkum undir, 19:17, þegar 14 mínútur voru til leiksloka. Nær komust þeir ekki og stóri þröksuldurinn var Silvio Heinvetter, markvörður Þjóðverja. Hann varði allt hvað af tók og alls 23 skot, þegar upp var staðið.
Miðasala á viðureign Íslands og Austurríki í Laugardalshöll á miðvikudaginn er hafin á midi.is.