Ísland komið á HM í Brasilíu

Karen Knútsdóttir reynir að brjótast í gegnum vörn Úkraínu.
Karen Knútsdóttir reynir að brjótast í gegnum vörn Úkraínu. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland leikur í fyrsta skipti í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem fram fer í Brasilíu í desember. Ísland og Úkraína skildu jöfn, 24:24, í seinni umspilsleik sínum í Uzhhorod í dag. Ísland vann fyrri leikinn, 37:18, og það var aldrei minnsta hætta á því að úkraínska liðið ynni upp þann mun.

Samanlagt vann því íslenska liðið með 19 mörkum, 61:42.

Þettaer í fyrsta sinn sem íslenskt landslið í hópíþrótt kvenna tryggir sér sæti á heimsmeistaramóti.

Ísland náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:6, og var yfir í hálfleik, 13:12. Í seinni hálfleik skiptust liðin á um að vera yfir. Staðan var 22:20 fýrir Úkraínu þegar skammt var eftir. Ísland jafnaði í 22:22, og aftur tvisvar í lokin. Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði síðasta mark leiksins úr vítakasti nokkrum sekúndum fyrir leikslok.

Mörk Íslands: Hanna Guðrún Stefánsdótitr 7/6, Hrafnhildur Skúladóttir 4, Karen Knútsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Ásta Birna Gunnarsdóttir 2, Stella Sigurðardóttir 1, Arna Sif Pálsdóttir 1, Rakel Dögg Bragadóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Brynja Magnúsdóttir 1.

Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 4, Guðrún Maríasdóttir 5.

Mörk Úkraínu: Olha Nikolayenko 10, Iryna Glibko 6/1, Yuliya Managarova 3, Valeriya Zorya 2, Anastasiya Pidpalova 2/2, Yana Batkova 1.

Varin skot: Maryna Vlasenko 4, Natalya Parkhomenko 6.

 Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

15.54 - 24:24. Leik lokið. Hanna Guðrún jafnaði úr vítakasti á lokasekúndunum og jafntefli niðurstaðan. Ísland er komið á HM kvenna í fyrsta skipiti.

15:48 - 23:23. Fjórar og hálf eftir. Úkraína komst í 22:20 en Ísland jafnaði 22:22 og svo kom Brynja Magnúsdóttir inná og jafnaði í 23:23.

15.41 - 21:20. Þrjú úkraínsk mörk í röð og þá tekur Ágúst Jóhannsson þjálfari leikhlé. Talsvert hefur verið um innáskiptingar hjá íslenska liðinu og margar fengið að spreyta sig. Búnar tæpar 22 mínútur.

15.36 - 18:19. Svona til að árétta hlutina, þá hefur Ísland nú skorað 19 mörk, og þar með verður Úkraína að vinna með 20 mörkum í dag til að fara á HM. Nítján marka sigur myndi ekki nægja heimaliðinu. Rétt eins og nokkur hætta sé á því...!

15.30 - 17:18. Ísland er komið yfir á ný á 12. mínútu eftir að hafa lent marki undir og verið tveimur færri um skeið. Þórey Rósa Stefánsdóttir jafnaði þó Ísland væri aðeins með 4 útileikmenn og síðan skoraði Hanna Guðrún sitt 5. mark í leiknum, úr vítakasti. Áfram 20 marka forysta Íslands samanlagt og ekki minnsta hætta á að Úkraína ógni því að Ísland leiki á HM í Brasilíu í desember.

15.24 - 16:16. Anastasia Pidpalova, sem skoraði 12 mörk í fyrri leiknum, var að skora sitt fyrsta mark í dag, úr vítakasti, og jafnar í 16:16. Olga Nikolayenko hefur hinsvegar gert 8 af 16 mörkum Úkraínu.

15.22 - 14:15. Íslenska liðið hefur skorað á undan í seinni hálfleiknum og forskotið eitt og tvö mörk til skiptis fyrstu 5 mínúturnar.

15.18 - 12:13. Seinni hálfleikur er hafinn.

15.07 - 12:13. Flautað til hálfleiks í Uzhhorod og munurinn er eitt mark, þar með 20 mörk samanlagt.

15.04 - 10:13. Ísland eykur forskotið á ný og Hanna Guðrún er komin með 4 mörk, þrjú úr vítaköstum. Búnar rúmar 28 mínútur.

15.00 - 9:11. Úkraína minnkaði muninn í 9:10 en Hanna Guðrún svaraði úr vítakasti. Jenný Ásmundsdóttir varði síðan vítakast frá Irynu Glibko.

14.57 - 7:10. Fyrsta leikhléið sem Úkraína tekur eftir 23 mínútna leik. Ísland er í vænlegri stöðu, svo ekki verði meira sagt. Samtals 22 marka munur á liðunum og nánast útilokað fyrir úkraínska liðið að ógna því að Ísland leiki á HM í Brasilíu í desember. Hrafnhildur og Karen eru markahæstar með 3 mörk hvor og Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur skorað 2 mörk.

14.52 - 6:10. Ísland er komið með góð tök á leiknum þegar 20 mínútur eru búnar. Stella Sigurðardóttir nýkomin inná og skoraði strax 10. mark Íslands með þrumufleyg.

14.46 - 5:7. Fyrri hálfleikur hálfnaður og Ísland er með undirtökin. Jafnræði þó með liðunum það sem af er. Forskot Íslands er 21 mark samanlagt. Karen Knútsdóttir með þrjú mörk með stuttu millibili.

14.43 - 4:6. Ísland nær tveggja marka forskoti í fyrsta sinn eftir 12 mínútur. Hrafnhildur komin með þrjú mörk.

14.40 - 3:3. Jafnt á öllum tölum og 9 mínútur liðnar. Hrafnhildur kom Íslandi tvisvar yfir og Karen Knútsdóttir jafnaði síðan í 3:3.

14.35 - 0:1. Lítið hefur gengið í fyrstu sóknum liðanna en Hrafnhildur Skúladóttir braut loks ísinn og kom Íslandi yfir.

14.31 Flautað til leiks í Uzhhorod.

Nái úkraínska liðið ekki að vinna upp þetta mikla forskot, leikur Ísland í fyrsta skipti í lokakeppni HM sem er haldin í Brasilíu í desember.

Borgin Uzhhorod, eða Uzhgorod eins og hún er sums staðar rituð, er vestast í Úkraínu, við landamæri Slóvakíu. Þar búa um 120 þúsund manns. Bein þýðing á nafni borgarinnar er Snákaborgin en hún dregur nafn sitt af ánni Uzh.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert