Vonar að kveðjuleikurinn sé ekki í dag

Patrick Fölser reynir að stöðva Arnór Atlason í leik Íslands …
Patrick Fölser reynir að stöðva Arnór Atlason í leik Íslands og Austurríkis. mbl.is/Kristinn

Patrik Fölser, einn leikreyndasti leikmaður austurríska landsliðsins í handknattleik, vonast til þess að leikurinn gegn Íslandi í Laugardalshöllinni í dag verði ekki kveðjuleikur hans með liðinu.

Fölser, sem er 34 ára gamall línumaður, spilar sinn 200. landsleik í dag. Vinni Ísland leikinn verður þetta hans síðasti landsleikur.

„Ef við tryggjum okkur sæti á EM mun ég ekki hætta. Þá mun ég hjálpa landsliðinu áfram eins og ég get og verð tilbúinn á EM í Serbíu 2012," sagði Fölser á vef austurríska handknattleikssambandsins.

Hann er bjartsýnn á að ná stiginu sem liðið þarf í Laugardalshöllinni í dag. „Við sýndum ekki okkar rétt andlit í tapleiknum gegn Þjóðverjum og getum spilað mikið betur. Kannski vanmeta Íslendingar okkur og það munum við nýta okkur," sagði Fölser sem er kominn heim til Austurríki og spilar með West Wien eftir að hafa leikið í 11 ár í Þýskalandi með Düsseldorf, N-Lübbecke og Pfullingen.

Leikurinn í Laugardalshöll hefst kl. 16.30. Ísland þarf að vinna til að komast á EM í Serbíu 2012 en Austurríkismönnum nægir jafntefli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert