Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær þá er Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, undrandi yfir þeirri aðferð sem Handknattleikssamband Evrópu hafði þegar það styrkleikaraðaði keppnisþjóðunum 16 sem taka þátt í Evrópukeppninni í Serbíu í byrjun næsta árs áður en dregið var í riðla í gær.
Ísland átti að vera í fyrsta styrkleikaflokki við dráttinn eftir að hafa hafnað í þriðja sæti á síðasta Evrópumóti. Daginn áður en dregið var var tilkynnt að þýska liðið hefði verið fært upp í 1. flokk en Ísland flutt í sæti Þýskalands í 3. flokki. Ástæðan væri sú að Þjóðverjar hefðu unnið riðilinn í forkeppninni sem lauk um liðna helgi en Ísland orðið í öðru sæti.
Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að HSÍ hafi mótmælt vinnuaðferðum og vinnubrögðum EHF, um leið og ljóst var að íslenska landsliðið yrði fært niður um tvo flokka og það í þágu Þýskalands.
Sjá nánar pistil Ívars um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.