Svíinn Magnus Andersson, sem á dögunum hætti störfum sem landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik, hefur verið ráðinn íþróttastjóri danska meistaraliðsins AG Köbenhavn, sem fimm íslenskir landsliðsmenn spila með á næsta tímabili.
Andersson, sem var lengi meðal fremstu handknattleiksmanna Svía, þjálfaði FCK í fimm ár en það félag var sameinað AG Håndbold á síðasta ári og úr því var myndað stórliðið AG Köbenhavn. Sem vann danska meistaratitilinn í fyrstu tilraun í vetur með Arnór Atlason sem fyrirliða og Snorra Stein Guðjónsson innanborðs. Nú hafa Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Guðmundsson bæst í hópinn.
Andersson, sem er 45 ára og lék 307 landsleiki fyrir Svía, á að starfa náið með þjálfurum liðsins, Sören Herskind og Klavs Bruun, og Sören Colding framkvæmdastjóra.