Logi leggur skóna á hilluna

Logi Geirsson glaðbeittur með silfrið frá Ólympíuleikunum sumarið 2008 þegar …
Logi Geirsson glaðbeittur með silfrið frá Ólympíuleikunum sumarið 2008 þegar íslenska landsliðið kom heim frá Peking. Friðrik Tryggvason

Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og atvinnumaður í handknattleik í Þýskalandi, hefur ákveðið að hætta keppni. Hann hefur glímt við afar þrálát meiðsli í hægri öxl um rúmlega tveggja ára skeið og eru þau orsök þess að  Logi hefur tekið þessa ákvörðun. 

Logi lék um sex ára skeið með Lemgo í Þýskalandi og var m.a. tvisvar í sigurliði félagsins í EHF-keppninni. Hann var í Íslandsmeistaraliði FH í vor. Þá var Logi í landsliði Íslands sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking fyrir þremur árum og til bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki í janúar 2010. 

Logi á að baki 97 A-landsleiki en í þeim skoraði hann 289 mörk.

Logi Geirsson sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í morgun: 

„Síðastliðin tvö ár hef ég verið að glíma við meiðsli í hægri öxl sem hafa gert mér erfitt fyrir að spila handbolta af fyrri krafti, þá íþrótt sem ég hef elskað frá barnsaldri. Í stað þess að halda áfram og bíða og vona að öxlin nái fyrri krafti þá hef ég ákveðið að leggja handboltaferilinn á hilluna frægu.

Ferillinn minn í handbolta hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Minningar og árangur sem enginn getur tekið frá mér. Tvisvar sinnum EHF-CUP meistari með Lemgo 2006 og 2010, Íslandsmeistaratitill með FH, bronze með landsliðinu 2010 á EM og silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2011, auk þess sem ég hef verið sæmdur Fálkaorðu fyrir árangur minn á vellinum.

Ég er þakklátur öllum þeim sem komið hafa að þjálfun minni, keyrt mig á æfingar, lánað mér handklæði, leiðbeint mér eða klappað fyrir mér fyrir framan sjónvarpið á mínum stærstu stundum sem íþróttamaður. Ég er mjög vel meðvitaður um að árangur minn, er árangur margra. Hafnarfjörður er vagga handboltans á Íslandi og mun ég beita mér fyrir því að íþróttin vaxi og dafni áfram í Hafnarfirði sem og á öllu Íslandi, þó svo að ég muni sinna því utan vallar framvegis.

Þetta er búið að vera eitt risastórt ævintýri sem ég fór inní með þeim formerkjum að gefa af mér. Hvort sem það var innan sem utan vallar.

Síðustu misseri hafa mér boðist tækifæri í markaðsetningu og kynningarvinnu fyrir Asics á Íslandi. Merkið er eitt það mest spennandi í íþróttum um um þessar mundir og hlakka ég til að vinna að framgöngu þess hérna heima og sanna mig á nýjum vettvangi ásamt því að klára viðskiptafræðinámið sem ég var byrjaður á.

Á sama tíma langar mig að einbeita mér að því sem hefur á síðustu árum orðið eins og ein af  ástríðum mínum en það er að tala við ungt fólk um tækifærin sem bíða þeirra, bæði innan vallar og utan. Ég mun halda áfram að flytja fyrirlesturinn minn "Það fæðist enginn atvinnumaður" Því allir geta orðið atvinnumenn, allir geta risið upp og farið fram úr eigin væntingum, allir geta náð árangri.

Mig langar til að einbeita mér að því næstu árin að tálga meðalmennskuna utan af framtíðaratvinnufólki og hjálpa því að ná árangri sem það trúði ekki að það ætti möguleika á að ná.

Upp með seglin og berjast.

Baráttukveðjur

Logi Geirsson“
 

Logi Geirsson t.v., ásamt Ingimundi Ingimundarsyni, Hreiðari Levy Guðmundssyni, Björgvini …
Logi Geirsson t.v., ásamt Ingimundi Ingimundarsyni, Hreiðari Levy Guðmundssyni, Björgvini Páli Gústavssyni og Sverre Jakobssyni að lokinnni verðlaunaafhendingu á Ólympíuleikunum í Peking. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert