Garðabær hefur í ljósi umræðunnar um mál kvennaliðs Stjörnunnar í fjölmiðlum síðustu daga gefið frá sér yfirlýsingu þar sem styrkir til félagsins eru sýndir. Þeir efast um að nokkurt annað sveitafélag styrki félagið eins myndarlega og Garðabær gerir.
Þar kemur meðal annars fram að Stjarnan hafi til umráða tvær íbúðir sem eru í eigu bæjarins fyrir leikmenn eða þjálfara. Þá segir að hvert barn í Garðabæ á aldrinum 5-18 ára fái 25 þúsund krónur til að greiða fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.
Yfirlýsing Garðabæjar:
Af gefnu tilefni vegna umfjöllunar um málefni Stjörnunnar vill Garðabær koma eftirfarandi á framfæri.
Garðabær styrkir starf Stjörnunnar árlega um háar fjárhæðir. Styrkir ársins 2011 skiptast þannig samkvæmt fjárhagsáætlun sem aðgengileg er á vef bæjarins:
Styrkir til Stjörnunnar árið 2011
Rekstrarstyrkur 21,9 milljónir
Fjárhagsstyrkur 7 milljónir
Afreksstyrkir 27 milljónir
Styrkur vegna barna- og unglingastarfs 8,9 milljónir
Styrkur vegna íþróttaskóla 2,1 milljón
Styrkur frá íþrótta- og tómstundaráði tæpar tvær milljónir
Styrkir vegna húsnæðis:
Styrkur vegna húsnæðisnotkunar 57,8 milljónir
Styrkur vegna fasteignagjalda 3 milljónir
Þjónustusamningur um rekstur knattspyrnuvalla 26,5 milljónir.
Að auki hefur Stjarnan haft til umráða tvær íbúðir í eigu bæjarins fyrir leikmenn eða þjálfara.
Forsvarsmenn Garðabæjar efast um að önnur sveitarfélög styrki íþróttafélög jafn myndarlega og gert er í Garðabæ. Í Garðabæ hefur einnig verið lagður mikill metnaður í uppbyggingu íþróttamannvirkja til að tryggja góða umgjörð utan um barna- og unglingastarf jafnt sem afreksstarf.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur lagt á það áherslu að styrkja íþrótta‐ og æskulýðsstarf í bænum með því að efla félögin til sjálfsbjargar. Það hefur m.a. verið gert með þjónustusamningum við félögin og með metnaðarfullri uppbyggingu á aðstöðu. Þá fær hvert barn og ungmenni í Garðabæ á aldrinum 5‐18 ára styrk að fjárhæð 25.000 kr. á ári til að greiða fyrir íþrótta‐ og æskulýðsstarf.
Undir yfirlýsinguna skrifar Gunnar Einarsson bæjarstjóri.