Meiðsli Einars Inga mikið áfall

Einar Ingi Hrafnsson í leik með HK áður en hann …
Einar Ingi Hrafnsson í leik með HK áður en hann hélt utan í atvinnumennsku í handknattleik. Morgunblaðið/Ómar

Jan Paulsen, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins í handknattleik,  Mors-Thy, segir það vera mikið áfall fyrir liðið að Einar Ingi Hrafnsson handarbrotnaði á æfingu íslenska landsliðsins á mánudaginn. Fyrir vikið muni hann vart leika meira með danska liðinu það sem eftir er ársins.

„Fjarvera Einars í næstu leikjum á eftir að reynast okkur erfið. Hann er  lykilmaður í leik okkar, jafnt í vörn sem sókn,“ er haft eftir Paulsen í  Morsø Folkeblad.

Einar Ingi kom til Mors-Thy í sumar eftir að hafa leikið um tveggja ára skeið með Nordhorn í þýsku 2. deildinni. Hann er næstmarkahæsti leikmaður liðsins sem er um miðja dönsku úrvalsdeildina.

Jón Þorbjörn Jóhannsson, sem er sterkur varnarmaður, er einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla og óvíst hvenær hann verður klár í slaginn. Paulsen segir að nú um stundir geti hann aðeins teflt fram einum ungum línumanni í næstu leikjum Mors-Thy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert