Ísland vann glæsilegan sigur á Svartfjallalandi í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Brasilíu í æsispennandi leik, 22:21.
Íslenska liðið byrjaði betur í leiknum en liðin skiptust svo á að vera yfir þar til að íslensku stelpurnar breyttu stöðunni úr 17:17 í 22:18 með frábærum kafla. Svartfjallaland minnkaði muninn í eitt mark þegar ein mínúta var eftir en fékk ekki fleiri tækifæri til að skora því Ísland hélt boltanum það sem eftir var.
Fáir reiknuðu með þessum frábæra sigri Íslands en liðið leikur næst gegn Angóla á morgun kl. 21:30.
Karen Knútsdóttir var markahæst hjá Íslandi með 6 mörk og Hrafnhildur Skúladóttir skoraði 5. Guðný Jenný Ásmundsdóttir stóð sig mjög vel fyrir aftan gríðarlega öfluga vörn og varði 14 skot.