Ísland mátti sætta sig við fjögurra marka tap gegn Afríkumeisturum Angóla í öðrum leik sínum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Brasilíu, 28:24.
Angóla náði frumkvæðinu um miðjan fyrri hálfleik og var þremur mörkum yfir í leikhléi. Ísland náði aldrei að ógna forskotinu af alvöru í seinni hálfleiknum. Stella Sigurðardóttir var markahæst hjá Íslandi með 7 mörk, þar af 4 úr vítum, en Dagný Skúladóttir stóð sig best í íslensku sókninni og skoraði 5 mörk úr vinstra horninu.
Angóla komst þar með á topp riðilsins með 4 stig en Ísland er með 2 stig líkt og Noregur, Þýskaland og Svartfjallaland. Næsti leikur Íslands er við Noreg á þriðjudaginn.