Hrafnhildur: Ertu ekki að grínast?

Hrafnhildur Skúladóttir gengur í burtu á meðan dómarinn rekur Dagnýju …
Hrafnhildur Skúladóttir gengur í burtu á meðan dómarinn rekur Dagnýju systur hennar af velli í leiknum í kvöld. mbl.is/Egill Örn Þórarinsson

 Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, réð sér varla fyrir kæti eftir sigurinn á Þjóðverjum á HM í Brasilíu í kvöld, 26:20, og kallaði „ertu ekki að grínast?“ á blaðamann mbl.is.

„Þetta var geðveikur leikur, maður missti aldrei trúna, ekki einu sinni í stöðunni 11:4, þá leit ég upp og sagði við sjálfa mig: „Núna kemur þetta.“ Við ætluðum að koma þeim á óvart og breyta um varnarleik. Við vorum aðeins of langt hver frá annarri en þá bökkuðum við niður í 6-0-vörnina og þá small þetta bara og við fengum það á tilfinninguna að þær væru ekkert að fara hérna framhjá okkur,“ sagði Hrafnhildur.

„Við eigum Kína á föstudag, en sem betur fer fáum við hvíldardag á milli sem verður vel nýttur, verðum duglegar að borða og síðan er það bara „back to basics“ og fara í 6-0 og þá hljótum við að taka þær,“ sagði Hrafnhildur kampakát eftir leikinn.

Ísland mætir Kína í lokaleik sínum í riðlakeppninni annað kvöld klukkan 21.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert