Frétt um að Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttur, markverði íslenska landsliðsins í handknattleik, hafi verið sagt upp starfi sínu skömmu fyrir heimsmeistaramótið hefur vakið mikla athygli í miðlum í Noregi og í Danmörku í dag. M.a. er fréttin sú mest lesna það sem af er degi á HM-vef TV2 í Danmörku.
Íslenskir fjölmiðlar sögðu frá uppsögn Guðnýjar áður en íslenska landsliðið hélt á heimsmeistaramótið í Brasilíu. Norska sjónvarpsstöðin TV2 sagði síðan frá henni í morgun og birti m.a. viðtal við Guðnýju sem hægt er að nálgast hér.
TV2 í Danmörku tók málið upp og vitnaði í félaga sína í Noregi. Fleiri vefmiðlar á Norðurlöndunum hafa tekið fréttina upp. Þá er TV2 í Danmörku einnig með tilvitnun í Knút Hauksson, formann Handknattleikssambands Íslands, í annarri frétt um málið á vefnum. Sú frétt hefur einnig hefur verið mikið sótt.
Guðný Jenný vildi ekkert tjá sig um uppsögnina við íslenska fjölmiðla áður en hún hélt út til Brasilíu. Í samtali við TV2 í Noregi sagði m.a. að það hefði verið „afar illa gert“ að segja sér upp en það sé nokkuð sem fyrirtækið súpi seyðið af. Hún finni sér annað starf.
Guðný Jenny fór á kostum í leiknum við Þjóðverja á HM í gærkvöldi og lokaði m.a. alveg íslenska markinu síðustu 10 mínútur leiksins.