Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, var mjög glöð eftir góðan og sætan sigur á Kína 23:16 í kvöld. Liðið gulltryggði sig með því í 16-liða úrslitin á HM. Nokkrir leikmenn sýndu ekki alveg sitt besta enda voru örlög liðsins ljós fyrir leikinn.
„Sætur sigur, það var fínt að vinna með sjö mörkum og ansi margir leikmenn sem spiluðu ekki mikið í kvöld. Við létum líka „hornamannsrotturnar“ okkar hlaupa svolítið og hafa fyrir því. Við náum góðri vörn á köflum og þar af leiðandi þessum ódýru mörkum sem við ætluðum okkur.“
Liðið mætir Rússlandi á sunnudaginn í 16-liða úrslitum. „Verður ekki fínt að slá út heimsmeistarana? Það verður verkefni sem bíður okkar, að mæta heimsmeisturunum,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir eftir leikinn.