Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er öruggt áfram í 16-liða úrslitin á heimsmeistaramótinu í Brasilíu. Þetta varð ljóst eftir að Angóla vann Þýskaland í dag 25:22. Þýskaland endar því með fjögur stig í riðlinum og fari svo að Ísland tapi fyrir Kína í kvöld er það með fjögur stig en betri innbyrðis árangur gegn Þýskalandi. Fjórða sætið í riðlinum væri því Íslands.
Fari hins vegar svo að Ísland vinni Kína í kvöld verður liðið með sex stig, jafnmörg og Angóla og Svartfjallaland eða Noregur. Þar eru hins vegar innbyrðisúrslit liðanna íslenska liðinu í óhag því aðeins leikir þeirra liða sem enda með jafnmörg stig eru teknir með í reikninginn. Aftur yrði hlutskipti Íslands fjórða sætið í riðlinum. Geri Kína og Ísland jafntefli endar Ísland eitt liða með fimm stig í fjórða sæti.
Það verður því annaðhvort Svartfjallaland eða Noregur sem vinnur riðilinn. Það ræðst af því hvort liðið vinnur leik liðanna í kvöld. Ef leiknum lyktar með jafntefli verður það Noregur sem vinnur riðilinn með betri markatölu.
Það er því ljóst að íslenska liðið mætir í 16-liða úrslitum Rússum, sem höfnuðu í 1. sæti B-riðils.
Þjóðverjar keppa um 17.-20. sæti eða í svokölluðum Forsetabikar.