„Við spiluðum mjög vel í 45 mínútur og vorum í raun óheppin að vera þremur undir í hálfleik,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við Stöð2 sport að loknum tapleiknum á móti Rússum í 16-liða úrslitum á HM í Brasilíu í dag.
Ágúst sagði liðið hafa gert mörg mistök í síðari hálfleiknum og bensínið hefði verið orðið lítið á lokakaflanum. Miðað við hvernig leikurinn þróaðist sagði Ágúst að 5-6 marka tap hefði verið eðlileg úrslit.
Ágúst sagði jafnframt að 12. sætið í keppninni væri stórkostlegur árangur.