Misjafnt gengi Íslendinganna

Kári Kristján Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Wetzlar í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Wetzlar í kvöld. Hilmar Þór Guðmundsson

Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, heldur áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Í kvöld vann liðið Hildesheim, 31:22, og situr sem fyrr í efsta sæti með fullt hús stiga eftir 17 umferðir.

Aron Pálmarsson náði ekki að skora fyrir Kiel að þessu sinni.

Guðmundur Þórður Guðmundsson gat glaðst í kvöld með sigur sinna lærisveinar á Hüttenberg, 30:26, á heimavelli. Róbert Gunnarsson fékk tækifæri til að spreyta sig í leiknum og skoraði tvö mörk, en Róbert hefur fá tækifæri fengið með Löwen í undanförnum leikjum.. Löwen er í 5. sæti með 23 stig eftir 17 leiki.

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður, og félagar hans í Magdeburg voru teknir í kennslustund í heimsókn sinni til meistara HSV Hamburg. Meistaraliðið vann með níu marka mun, 32:23.  Magdeburg er áfram í 6. sæti með 20 stig en Hamburg er í þriðja sæti með 26 stig.

Kári Kristján Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Wetzlar í átta marka sigri á Gummersbach, 35:27, á heimavelli. Wetzlar er í 11. sæti með 14 stig. Gummersbach-liðið er hinsvegar í slæmum málum í þriðja neðsta sæti deildarinnar og má muna sinn fífil fegri.

Sverre Andreas Jakobsson og félagar í Grosswallstadt hafa hins vegar spyrnt sér frá botninum, a.m.k. að sinni. Í kvöld unnu þeir Göppingen, 23:21, á heimavelli og eru komnir í 13. sæti með 13 stig. Sverre skoraði ekki mark í leiknum í kvöld fremur en stundum áður en honum var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.

Íslendingatríóið í Hannover Burgdorf mátti sætta sig við tap fyrir Flensburg á heimavelli, 31:29. Hannes Jón Jónsson, fyrirliði Burgdorf, skoraði fimm mörk, Vignir Svavarsson þrjú og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt.  Burgdorf erí 14 sæti með 12 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert