Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, heldur áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Í kvöld vann liðið Hildesheim, 31:22, og situr sem fyrr í efsta sæti með fullt hús stiga eftir 17 umferðir.
Aron Pálmarsson náði ekki að skora fyrir Kiel að þessu sinni.
Guðmundur Þórður Guðmundsson gat glaðst í kvöld með sigur sinna lærisveinar á Hüttenberg, 30:26, á heimavelli. Róbert Gunnarsson fékk tækifæri til að spreyta sig í leiknum og skoraði tvö mörk, en Róbert hefur fá tækifæri fengið með Löwen í undanförnum leikjum.. Löwen er í 5. sæti með 23 stig eftir 17 leiki.
Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður, og félagar hans í Magdeburg voru teknir í kennslustund í heimsókn sinni til meistara HSV Hamburg. Meistaraliðið vann með níu marka mun, 32:23. Magdeburg er áfram í 6. sæti með 20 stig en Hamburg er í þriðja sæti með 26 stig.
Kári Kristján Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Wetzlar í átta marka sigri á Gummersbach, 35:27, á heimavelli. Wetzlar er í 11. sæti með 14 stig. Gummersbach-liðið er hinsvegar í slæmum málum í þriðja neðsta sæti deildarinnar og má muna sinn fífil fegri.
Sverre Andreas Jakobsson og félagar í Grosswallstadt hafa hins vegar spyrnt sér frá botninum, a.m.k. að sinni. Í kvöld unnu þeir Göppingen, 23:21, á heimavelli og eru komnir í 13. sæti með 13 stig. Sverre skoraði ekki mark í leiknum í kvöld fremur en stundum áður en honum var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.
Íslendingatríóið í Hannover Burgdorf mátti sætta sig við tap fyrir Flensburg á heimavelli, 31:29. Hannes Jón Jónsson, fyrirliði Burgdorf, skoraði fimm mörk, Vignir Svavarsson þrjú og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt. Burgdorf erí 14 sæti með 12 stig.