FH og Haukar mætast í Hafnarfjarðarslag á morgun í úrslitum deildabikars karla í handknattleik. Þetta varð ljóst þegar FH vann HK í framlengdum undanúrslitaleik í kvöld, 28:26.
Daníel Freyr Andrésson varði 22 skot í marki FH en þeir Baldvin Þorsteinsson og Hjalti Pálmason voru markahæstir með 7 mörk hvor. Atli Rúnar Steinþórsson skoraði 6, þar af 3 í framlengingunni. Hjá HK var Bjarki Már Elísson markahæstur með 9 mörk og Tandri Már Konráðsson skoraði 4. Björn Ingi Friðþjófsson varði 9 skot í marki HK, þar af víti í framlengingunni og skot á lokasekúndum venjulegs leiktíma, og Arnór Freyr Stefánsson varði 11 skot.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
70. Leik lokið. FH landaði að lokum sigri, 28:26, í þessum bráðskemmtilega leik.
68. Atli Rúnar Steinþórsson er í ham hér í framlengingunni og var að skora tvö mörk í röð af gríðarlegu harðfylgi, og koma FH í 26:25. Daníel varði svo víti frá Bjarka Má í kjölfarið.
65. Hálfleikur í framlengingu. Atli Rúnar skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks framlengingarinnar rétt áður en flautan gall og minnkaði muninn í eitt mark fyrir FH, 25:24.
63. Björn Ingi varði vítakast Baldvins í fyrstu sókn FH í framlengingunni en Bjarki Már skoraði úr víti í fyrstu sókn HK-inga eftir að Hjalti Pálmason fékk tveggja mínútna brottvísun. Staðan 23:22.
60. Venjulegum leiktíma lokið. Það þarf að framlengja hér. Björn Ingi varði lokaskotið frá Ara Magnúsi Þorgeirssyni þegar tvær sekúndur voru eftir. Í lokasókninni var aukakast dæmt og Vilhelm Gauti potaði þá boltanum í burtu til að tefja án þess að dómararnir tækju eftir því. Hann hefði annars eflaust fengið brottvísun og voru FH-ingar illir yfir atvikinu.
60. Ólafur Bjarki Ragnarsson hefur verið í gíslingu í seinni hálfleiknum en var að skora sitt fyrsta mark með þrumuskoti og jafna metin í 22:22. Nú er hálf mínúta eftir og FH var að taka leikhlé.
59. Það er ein mínúta og 22 sekúndur eftir og HK var að taka leikhlé. FH er marki yfir, 22:21 en HK með boltann eins og gefur að skilja. Nú er að sjá hvaða ása Kópavogsbúar eiga í erminni.
55. Nú eru sléttar fimm mínútur eftir og staðan hnífjöfn, 20:20. Taugarnar verða þandar á þessum lokamínútum.
48. FH-ingar hafa jafnað metin, 17:17, í fyrsta sinn síðan staðan var 4:4. Andri Berg Haraldsson var hins vegar að fá sína þriðju brottvísun og spilar því ekki meira í þessum leik.
42. Hjalti Pálmason var að skora sitt fimmta mark fyrir FH sem er enn undir í leiknum en með aðeins einu marki, 15:14. HK var að skipta um markvörð, Björn Ingi Friðþjófsson er kominn inná í stað Arnórs Freys Stefánssonar sem þó hafði varið 11 skot.
36. FH-ingar nýttu tímann vel þegar varnarmaðurinn öflugi Bjarki Már Gunnarsson fékk tveggja mínútna brottvísun, skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 13:12.
30. Hálfleikur. HK-ingar gerðu tvö síðustu mörk hálfleiksins og eru yfir, 12:9. FH-ingar voru brjálaðir yfir að fá ekki vítakast í lok hálfleiksins, strunsuðu flestir beint inn í klefa og létu Þorkeli Magnússyni eftir að taka aukakastið sem dæmt var. Hann var hársbreidd frá því að skora. Bjarki Már Elísson er markahæstur HK með 5 mörk en Baldvin Þorsteinsson og Hjalti Pálmason hafa skorað 3 mörk hvor fyrir FH sem gerði aðeins 5 mörk á fyrstu 20 mínútunum. Daníel Freyr varði 8 skot í marki FH og Arnór Freyr 7 í marki HK.
22. FH-ingar tóku leikhlé og hafa aðeins náð sér á strik í sókninni en staðan er 9:7, HK í vil. Arnór Freyr Stefánsson var að verja sitt sjötta skot í marki HK en Daníel Freyr Andrésson hefur varið sjö fyrir FH.
17. Íslandsmeistararnir hafa ekki skorað í hátt í tíu mínútur en HK hefur gert fjögur mörk í röð og er yfir, 6:4. Bjarki Már Elísson er kominn með þrjú mörk.
8. HK komst í 2:1 en FH skoraði svo þrjú mörk í röð og er yfir, 4:2. Ég bind vonir við að hér sé loks í uppsiglingu spennandi leikur, eftir þrjá afar ójafna leiki hér í Strandgötunni í dag.
0. Í lið FH vantar bæði Ólaf Gústafsson og Örn Inga Bjarkason. HK-ingar eru án Atla Ævars Ingólfssonar og Ólafs Víðis Ólafssonar.
0. Báðir leikir liðanna í vetur hafa verið jafnir og spennandi. Fyrri leikurinn endaði með jafntefli en FH vann þann seinni naumlega.