Stefán Rafn: Alltaf frábært að vinna FH

„Það er alltaf frábært að vinna FH og sérstaklega hérna í Strandgötu með troðfullt hús af fólki,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson sem var markahæstur Hauka í sigrinum á FH í úrslitum deildabikarsins í handbolta í kvöld.

„Það mæta allir tilbúnir í þessa leiki, sama þó þeir séu eitthvað meiddir og svona, og við náðum að þjappa okkur saman og byrja leikinn af krafti,“ sagði Stefán Rafn en Haukar náðu snemma frumkvæðinu, léku góða vörn og Aron Rafn Eðvarðsson varði helming skota sem á markið komu.

„Hann var bara eins og Einar Þorvarðar í den, annan leikinn í röð, og ekkert hægt að kvarta yfir markvörslunni. Hann var bara frábær og vörnin líka. Það er mjög gott að halda þeim í 20 mörkum,“ sagði Stefán Rafn sem er einnig ánægður með endurkomu Arons Kristjánssonar þjálfara sem skildi við Hauka sem Íslandsmeistara vorið 2010 og er nú farinn að landa titlum með liðinu á nýjan leik.

„Hann er frábær þjálfari og það breytir miklu að fá hann aftur. Hann er með nýjar áherslur sem skila sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert