Þegar þetta er ritað er óhætt að segja að ég hafi ekki alveg jafnað mig eftir viðureignina við Norðmenn á Evrópumeistaramótinu þótt ég hafi ekki verið beinn þátttakandi í leiknum.
Þvílík rússíbanareið sem síðustu tíu mínútur þessa leiks voru fyrir áhorfendur hér í Vrsac. Rúmum tíu mínútum fyrir leikslok benti ekki margt til íslensks sigur. Flest var liðinu mótdrægt inni á vellinum og að mér sóttu minningar frá EM í Slóveníu fyrir átta árum þegar ég fylgdi íslenska landsliðinu eftir einu sinni sem oftar. Þá heltist það úr lestinni eftir þrjá leiki í riðlakeppninni og hélt til síns heima eftir tvo tapleiki og jafntefli í síðasta leik.
Vissulega er sá möguleiki enn fyrir hendi að sigurinn sæti á Norðmönnum í fyrrakvöld nægi ekki einn og sér til að Ísland haldi áfram keppni á EM að lokinni riðlakeppninni í kvöld. En möguleikinn á sæti í milliriðlum jókst þó fremur en hitt með þessum ævintýralega sigri sem lengi verður í minnum hafður.