„Við spiluðum að minnsta kosti ekki nógu vel í þessum leik til þess að verðskulda sæti í milliriðli,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir tapið fyrir Slóvenum, 34:32, í lokaumferð D-riðils Evrópukeppninnar í Vrsac í Serbíu í gær.
Þrátt fyrir tapið komst íslenska landsliðið áfram í milliriðil en hefur þar keppni án stiga, reyndar eins og heims-, Evrópu-, og ólympíumeistarar Frakka.
Keppni í milliriðli hefst á morgun en í dag flytur íslenska liðið sig frá Vrsac til Novi Sad, næst fjölmennustu borgar Serbíu, þar sem leikir milliriðlakeppninnar fara fram.
„Ég mun gera breytingar á hópnum nú þegar í milliriðil er komið. Hverjar þær eru vil ég ekki tjá mig um á þessari stundu þar sem ég hef ekki kynnt hópnum breytingarnar,“ sagði Guðmundur sem útilokaði að kallaðir yrðu til leikmenn sem voru utan 20 manna hópsins sem æfði saman fyrir Evrópumótið og þangað til EM hópurinn var tilkynntur. Þar með er hægt að útiloka að reynt verði að fá Snorra Stein Guðjónsson og Ólaf Stefánsson til móts við liðið eins og sumir hafa velt vöngum yfir. Guðmundur sagðist tilkynna breytingar sínar í dag.
Nánar er rætt við Guðmund og fjallað ítarlega um landsliðið og EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.