„Ég hef ekki skrifað undir neinn samning við neitt félag enn sem komið er,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður AG í Danmörku, við Morgunblaðið í gær.
Guðjón Valur hefur verið sterklega orðaður við þýska toppliðið Kiel og flestir virðast gera því skóna að hann fari þangað eftir þetta tímabil. Bylgjan og Vísir sögðu í gær að hann væri búinn að skrifa undir tveggja ára samning við lið Alfreðs Gíslasonar.
„Þegar ég skrifa undir samning og viðkomandi félag gerir það opinbert verður það á hreinu og ekki fyrr. Við sjáum bara til hvað það verður og hvenær. Í þessum efnum er ekkert staðfest fyrr en það er komið á blað, og blaðið komið í hendur þeirra sem hafa með það að gera, og þetta er einfaldlega ekki komið á það stig. Enginn samningur er farinn frá mér til einhvers félags, það er hinn eini sannleikur í málinu. Svo bíðum við bara og sjáum hvað gerist,“ sagði Guðjón Valur, sem býr sig undir bikarhelgina í danska handboltanum.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.