Sigurður Eggertsson, leikmaður Fram sem á tíðum kallar sjálfan sig gleðigjafann, stóð svo sannarlega undir nafni í kvöld þegar hann tryggði Fram sigur á HK og sæti í úrslitum Eimskipsbikarkeppninnar í handknattleik. Sigurður var svo glaður í leikslok að hann mátti vart mæla, bæði vegna gleði og eins sökum hæsi.
Sigurður kastaði boltanum milli tveggja varnarmanna HK og í markið og innsiglaði eins marks sigur, 24:23, þegar leiktíminn var úti. Einar Jónsson, þjálfari Fram, sagði við Sigurð skömmu áður en viðtalið var tekið að hann hafi alls ekki viljað að Sigurður tæki aukakastið en náði bara engu sambandi við pilt til þess að skipta um skyttu.
Sigurður sagði hinsvegar að aukakastið hafi verið úthugsað og það hafi borið árangur.