Góð úrslit fyrir Ísland - leikmaður ÍBV jafnaði

Julie Nelson, til hægri, miðvörður ÍBV, skoraði jöfnunarmarkið í Belgíu.
Julie Nelson, til hægri, miðvörður ÍBV, skoraði jöfnunarmarkið í Belgíu. Eggert Jóhannesson

Belgía og Norður-Írland skildu jöfn, 2:2, í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu í Dessel í Belgíu í kvöld en liðin eru með íslenska landsliðinu í riðli. Með sigri hefði belgíska liðið getað jafnað það íslenska að stigum en Julie Nelson, leikmaður ÍBV, sá til þess að svo yrði ekki þegar hún jafnaði leikinn fyrir Norður-Íra sjö mínútum fyrir leikslok.

Belgar komust yfir á 44. mínútu en norðurírska liðið jafnaði metin á sjöttu mínútu síðari hálfleiks. Aðeins fjórum mínútum síðar komust Belgar yfir á nýjan leik en leikmenn Norður-Íra neituðu að játa sig sigraða.

Fimm núverandi og fyrrverandi leikmenn íslenskra liða voru í byrjunarliði Norður-Íra í kvöld, auk Nelson þær Emma Higgins sem verður markvörður KR í sumar og lék áður í Grindavík, Sarah McFadden, Ashley Hutton og Rachel Furness.

Ísland er efst í riðlinum með 13 stig að loknum fimm leikjum. Belgar hafa 11 stig og hafa spilað leik meira. Norður-Írland er með með átta stig eftir fimm leiki, Noregur sex stig að loknum fjórum leikjum, Ungverjar eru með fjögur stig eftir fimm leiki og Búlgarar reka lestina án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert