Stefan Albrechtson, framkvæmdastjóri sænska handknattleiksliðsins Sävehof, segir að sínir menn eigi enga möguleika gegn AG Köbenhavn en liðin mætast í 16-liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.
„Við getum ekki unnið og ég tel að við eigum enga möguleika. Ég vona hins vegar að við fáum góða leiki,“ sagði Albrechtson við vef danska ríkisútvarpsins.
Leikmenn og þjálfari AG Köbenhavn voru virkilega ánægðir með dráttinn.
„Ég þekki Sävehof og tel að við séum sigurstranglegri í þessu einvígi,“ sagði Magnus Andersson við danska fjölmiðla þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við drættinum en Andersson sagði í viðtali við Morgunblaðið eftir leikinn við Kiel í fyrrakvöld að hann vonaðist til að mæta löndum sínum.
„Þetta er stutt ferðalag og ég er ánægður með það. Það var mikilvægast fyrir mig,“ segir reynsluboltinn Joachim Boldsen. „Við ætlum að komast í átta liða úrslitin og eigum góða möguleika.“