„Við spiluðum vel en Sveinbjörn var okkur erfiður,“ sagði Sverrir Hermannsson úr Aftureldingu eftir 23:28 tap fyrir Akureyri í Mosfellsbænum í kvöld þegar leikið var í N1-deild karla í handknattleik.
„Við ætluðum bara að spila að okkar hætti en fórum auðvitað yfir sóknarleik Akureyringa og vorum viðbúnir enda spiluðum við flottan varnarleik og sóknarleikurinn var líka flottur en Sveinbjörn í markinu hjá þeim gerði út um leikinn með því að verja í dauðafærum, það drap okkur alveg fyrir utan hörmulega byrjun. Það er erfitt að byrja leikinn með því að lenda fjórum mörkum undir og þurfa síðan að elta allan leikinn. Ég er því sáttur við fyrri hálfleikinn þegar okkur tókst að opna vörn Akureyringa og ég bjóst við að við myndum ná lengra en Akureyringar voru bara sterkari en við í seinni hálfleik.“