Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur staðið eins og klettur í miðju varnar Íslands í tveimur undanförnu leikjum gegn Sviss. Ísland hafði í dag 15 marka sigur, 31:16, og sjö marka sigur í Sviss á fimmtudaginn, 26:19, í undankeppni Evrópumótsins.
Anna sagði þær vera búnar að slípa vörnina mjög vel saman og árangurinn væri eftir því. Íslenska liðið gerði nokkuð mörg mistök miðað við svo stóran sigur. Spurð að því hvort það sýndi styrk íslenska liðsins eða veikleika Sviss var Anna sannfærð um að það væri styrkur Íslands.
Hún sagði leikina tvo gegn Spánverjum og Úkraínu sem eftir eru í riðlinum vera upp á líf og dauða en Ísland þarf fjögur stig út úr þeirri baráttu. Þá þurfa þær að vinna með um sex til sjö marka mun ef hægt er að gefa sér að Spánn og Úkraína vinni bæði Sviss, sem verður að teljast líklegt. Þá enda öll liðin með átta stig og verður litið til innbyrðis viðureigna þeirra og þess vegna þarf íslenska liðið að ná upp markahlutfallinu en þær töpuðu með fimm marka mun gegn Spánverjum í fyrri leiknum og einu marki gegn Úkraínu.