Lund í „frystikistunni“ hjá Guðmundi

Börge Lund í landsleik með Norðmönnum.
Börge Lund í landsleik með Norðmönnum. Kristinn Ingvarsson

Norski landsliðsmaðurinn Børge Lund ber sig aumlega um þessar mundir sökum þess að hann fær lítið að spila með þýska 1. deildarliðinu Rhein-Neckar Löwen sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar. Segist Lund íhuga að komast að hjá öðru liði en það sé hægara sagt er gert þar sem hann á eitt eftir af samningi sínum við Löwen.

Lund kom til Löwen sumarið 2010 frá meistaraliðinu Kiel en Svíinn Ola Lindgren var við stjórnvölin hjá Löwen þegar skrifað var undir þriggja ára samning við Norðmanninn.

Lund segir í samtali við norska blaðið Avisa Nordland að hann sé kominn út í kuldann hjá þjálfara Löwen. Það sé alveg sama hvernig hann standi sig á æfingum, hann fái aðeins að spila í stuttan tíma í sumum leikjum en í öðrum ekkert. Lund telur sig vera kominn í „frystikistuna“ hjá Guðmundi þjálfara, sem hann nefnir þó aldrei á nafn í viðtalinu.

„Þjálfarinn hefur sagt mér að hann hafi aðra leikmenn í huga í mína stöðu. Þar með er ég aftastur í röðinni,“ segir Lund m.a. í fyrrgreindu viðtali og bætir við að ljóst sé að forráðamenn Löwen vilja að hann rói á önnur mið. Lund segir það ekki koma til greina að til hvaða félags sem er en um tíma eftir áramótin virtust forráðamenn Gummersbach renna hýru auga til Lunds.

Lund fór illa að ráði sínu undir lok tveggja leikja í lok síðasta árs og bæði skiptin kostuðu ítrekuð mistök hans í leikjum Löwen sigur. Fyrst í deildarleik gegn Lübbecke og síðan í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar við HSV Hamburg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert