Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, vill að liðið verði búið að tryggja sér ólympíusætið á morgun, eftir leikinn við Japani, en í kvöld mætir íslenska liðið Sílemönnum í fyrsta leiknum af þremur í forkeppni Ólympíuleikanna.
„Við eigum að geta verið búnir að tryggja okkur ólympíusætið á laugardeginum og við verðum að gera það. Við höfum oft farið einhverja fjallabaksleið en við ætlum að forðast hana núna. Við þurfum að fá vörnina góða sem er mjög mikilvægt. Það er oftast hún sem hefur mest að segja og við erum góðir í hraðaupphlaupunum. Ef vörnin verður góð ásamt markvörslunni hef ég litlar áhyggjur,“ sagði Ólafur, sem er kominn aftur í landsliðshópinn en hann var ekki með liðinu á Evrópumótinu í Serbíu í janúar.