Öruggur íslenskur sigur

Ólafur Stefánsson sækir að vörn Sílemanna.
Ólafur Stefánsson sækir að vörn Sílemanna. ljósmynd/Marlon Janiček

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á Síle, 25:17, í fyrsta leik sínum í forkeppni Ólympíuleikanna í Varazdin í Króatíu í kvöld. Íslenska liðið hafði tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda og hafði fimm marka forskot í hálfleik, 12:7, og náði mest 12 marka forskoti eftir miðjan síðari hálfleik.

Ísland mætir Japan í keppninni á morgun kl. 16.15 og getur með sigri í þeim leik tryggt sér sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Leikur íslenska liðsins var á köflum góður. Varnarleikurinn var fínn lengst af og þá var Björgvin Páll Gústavsson sterkur í markinu. Hann varði 18 skot, þar af þrjú vítaköst á þeim 50 mínútum sem hann stóð í markinu.

Sóknarleikur íslenska liðsins var upp og ofan. Grunnurinn að þessum sigri var lagður með varnarleik og markvörslu. Þessi atriði gáfu möguleika á mörgum hraðaupphlaupum sem voru misjafnlega vel nýtt en nóg til þess að skapa góða forystu. Síðustu tíu mínútur leiksins leystist leikur íslenska liðsins nokkuð upp, jafnt í vörn og ekki síst í sókn. Það kom ekki að sök þar sem munurinn var mikill.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 10 mörk. Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu fjögur mörk hvor.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Ísland 25:17 Síle opna loka
60. mín. Ólafur Bjarki Ragnarsson (Ísland ) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert