Ísland í þriðja styrkleikaflokki fyrir ÓL

Aron Pálmarsson skýtur að marki Japana í leik þjóðanna í …
Aron Pálmarsson skýtur að marki Japana í leik þjóðanna í Varazdin um páskana. Ljósmynd/Marlon Janicek

Endanleg röðun í styrkleikaflokkana fyrir dráttinn í riðla handknattleikskeppninnar á Ólympíuleikunum í London hefur verið gefin út og Ísland er í þriðja styrkleikaflokki, ekki í þeim fjórða eins og útlit var fyrir.

Serbar færðust yfir í fjórða flokk í staðinn þar sem þeir urðu síðasta liðið til að tryggja sér Ólympíusæti, og eru fyrir vikið í flokki með gestgjöfunum, Bretum, sem er lakasta lið keppninnar.

Ísland er í 3. flokknum ásamt Ungverjalandi og það þýðir einfaldlega að Ungverjaland er eina liðið sem öruggt er að verður ekki andstæðingur Íslands í riðlakeppninni.

Liðunum tólf sem leika um Ólympíugullið er skipt í tvo riðla. Styrkleikaflokkarnir eru sex og því dregið eitt lið úr hverjum flokki í hvorn riðil keppninnar en það verður gert í London 30. maí. Flokkarnir eru þannig:

1. Frakkland og Spánn
2. Svíþjóð og Króatía
3. Ísland og Ungverjaland
4. Serbía og Bretland
5. Danmörk og Argentína
6. Suður-Kórea og Túnis

Eins og sést á þessu geta riðlarnir orðið missterkir, sérstaklega ef Serbía og Danmörk dragast saman í annan riðilinn og Bretland og Argentína í hinn.

Keppnisfyrirkomulagið á Ólympíuleikunum er þannig að fjögur lið komast áfram úr hvorum riðli í átta liða úrslitin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert