„Stemningin á bekknum er ávallt mjög góð,“ sagði hinn síkáti Stefán Guðnason, markvörður Akureyrar, eftir sigur liðsins á FH, 25:18. Stefán er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins, en hann kemur jafnan inn þegar skammt er eftir og leysir þá Sveinbjörn Pétursson af á milli stanganna. Stefán skilur þó oft ekkert í kollega sínum.
„Þegar Sveinbjörn kemur til manns og segir manni að skipta við sig eftir að hafa fengið á sig 12 mörk á 50 mínútum eins og í þessum leik á maður ekki orð. Hvað á maður að segja við svona vitleysing? Að standa sig svona vel og það í úrslitaleik, en biður um skiptingu. Það er náttúrlega hrikalega gaman að honum. Hann tekur svo marga mikilvæga bolta að það er hreint með ólíkindum. Ótrúlegur karakter. Ef hann verður ekki maður leiksins eftir þetta þá þarf ég nú að fara að ræða við ákveðna menn,“ sagði Stefán glettinn.
Hann lætur þó ekki sitt eftir liggja á hliðarlínunni. „Það er alltaf gaman hjá heilögu þrenningunni, en það erum ég, Jón Heiðar og Daníel. Jón Heiðar fékk nú reyndar að spila eitthvað núna svo það er bara heilaga „tvenningin“ núna. En það er líka gríðarlega gaman að fylgjast með svona leik. Við vorum góðir varnarlega sem bætti upp fyrir rólegan sóknarleik á köflum. En nú erum við búnir að stimpla okkur inn. Við vorum óheppnir í fyrsta leiknum en erum að senda skýr skilaboð núna að við munum fylgja þeim fast á eftir suður fyrir næsta leik,“ sagði Stefán.
Samstarf hans og Sveinbjörns er greinilega gott og eru þeir duglegir að styðja hvor annan. Stefán segir það gríðarlega mikilvægt. „Já, þetta gengur mjög vel hjá okkur. Ég þurfti reyndar að spila heldur mikið í síðasta leik svo ég er eiginlega með strengi ennþá eftir það. Það væri því ágætt ef minn spilakvóti í þessu einvígi væri búinn núna og ég styð Bubba bara af bekknum,“ sagði Stefán Guðnason, markvörður Akureyrar, skælbrosandi í leikslok.