HK vann fyrsta leikinn í Kaplakrika

Frá viðureign FH og HK í dag.
Frá viðureign FH og HK í dag. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Fyrsti úrslitaleikur FH og HK um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla fór fram í Kaplakrika í dag og hófst klukkan 15:45. HK sigraði 26:23 og hafði yfir að loknum fyrri hálfleik 13:10. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Lið FH: Daníel Freyr Andrésson, Pálmar Pétursson - Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Baldvin Þorsteinsson, Hjalti Pálmason, Ólafur Gústafsson, Örn Ingi Bjarkason, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson, Atli Rúnar Steinþórsson.

Lið HK: Björn Ingi Friðþjófsson, Arnór Freyr Stefánsson - Valgeir Tómasson, Bjarki Már Gunnarsson, Björn Þórsson Björnsson, Bjarki Már Elísson, Tandri Már Konráðsson, Leó Snær Pétursson, Ólafur Bjarki Ragnarsson, Atli Ævar Ingólfsson, Ólafur Víðir Ólafsson, Sigurjón Friðbjörn Björnsson, Vilhelm Gauti Bergsveinsson, Atli Karl Backmann.

Atkvæðamestir:

FH: Örn Ingi Bjarkason 6, Hjalti Pálmason 5. 

HK: Tandri Már Konráðsson 6, Atli Ævar Ingólfsson 6. Björn Ingi Friðþjófsson 18 skot varin.

60. mín: Leiknum er lokið með sigri HK 26:23 sem hafði forystu frá fyrstu mínútu leiksins og hún var mest sjö mörk í stöðunni 19:12.

59. mín: Staðan er 25:21 fyrir HK. Úrslitin eru svo gott sem ráðin.

56. mín: Staðan er 23:19 fyrir HK. Vilhelm Gauti var að fjúka út af í þriðja skipti og fékk þar með rautt spjald.

55. mín: Staðan er 22:19 fyrir HK. FH-ingum hefur tekist að minnka muninn niður í þrjú mörk og síðustu fimm mínúturnar að fara í hönd. Tvö mörk í röð frá Baldvini. Hans fyrstu í leiknum.

51. mín: Staðan er 22:16 fyrir HK. Sigurjón Friðbjörn var að skora fyrir HK úr þröngu færi  í hægra horninu. Mjög mikilvægt mark.

46. mín: Staðan er 20:16 fyrir HK. Hjalti Pálma var að negla boltann í netið hjá HK og minnka muninn niður í fjögur mörk. Pálmar Pétursson fær nú að reyna sig í marki FH og hefur varið 2 skot eftir að hann kom inn á eftir um 40 mínútna leik.

42. mín: Staðan er 19:13 fyrir HK. Andri Berg var að fá sína þriðju brottvísun hjá FH og þar með rautt spjald. Hann missti einbeitinguna og fékk þær tvær síðustu með mjög skömmu millibili.

38. mín: Staðan er 19:12 fyrir HK. Nú verður athyglisvert að sjá úr hverju leikmenn meistaraliðsins eru gerðir. Tandri Már er að springa út sem stórskytta á réttum tímapunkti á keppnistímabilinu. Hann er tvívegis búinn að hamra boltann í netið hjá FH á upphafsmínútum síðari hálfleiks og er alls búinn að skora 6 mörk.

33. mín: Staðan er 16:11 fyrir HK. Síðari hálfleikur er hafinn og hann byrjar á svipuðum nótum og leikurinn. HK er búið að ná fimm marka forskoti á ný í fyrsta skipti síðan í stöðunni 6:1.

30. mín: Staðan er 13:10 fyrir HK að loknum fyrri hálfleik. Þó Hafnfirðingar hafi bætt sinn leik þá tókst Kópavogsbúum engu að síður að halda þeim í skefjum og eru með þriggja marka forskot. Leikur HK mallar eins og hann á að gera. Menn eru fastir fyrir í vörninni og Björn Ingi hefur varið 11 skot í markinu. Í sókninni eru Ólafur Bjarki og Tandri báðir búnir að skila 4 mörkum. Andri Berg er markahæstur hjá FH með 3 mörk en FH-ingar þurfa að fá stærra framlag frá Daníel í markinu en hann hefur varið 6 skot. Vörnin fyrir framan hann hefur lagast eftir því sem á hefur liðið leikinn.

24. mín: Staðan er 9:7 fyrir HK. Meistararnir eru að mjaka sér inn í leikinn og munurinn er kominn niður í tvö mörk.

16. mín: Staðan er 7:3 fyrir HK. Vilhelm Gauti var að fá sína aðra brottvísun í leiknum. Grafalvarlegt mál fyrir HK enda er um að ræða þeirra reyndasta varnarmann.

12. mín: Staðan er 6:2 fyrir HK. Greininlegt er að þegar leikmenn HK vinna boltann þá ætla þeir að reyna að ljúka sóknum sínum áður en FH nær að stilla upp í vörn. Það hefur stundum heppnast og stundum ekki á þessum upphafsmínútum. 

7. mín: Staðan er 6:1 fyrir HK. Kristáni Ara og Einar Andra er nóg boðið og þeir taka leikhlé eftir að HK bætti sjötta markinu við.

6. mín: Staðan er 5:1 fyrir HK. Íslandsmeistararnir eru ekki tilbúnir í slaginn enn sem komið er en Kópavogsbúar eru rétt stilltir og spila hörkuvörn.

1. mín: Staðan er 1:0 fyrir HK. Leikurinn byrjar með látum. Ólafur Bjarki er búinn að stimpla sig inn í úrslitarimmuna með því að skora fyrsta markið. Hinu megin fékk Atli Rúnar vítakast og honum og Vilhelm Gauta lenti nánast saman strax á fyrstu mínútu. Björn Ingi varði vítakastið frá Hjalta Pálma. Óskabyrjun hjá HK.

Kl 15:44 Ólafur Þ. Harðarson prófessor er búinn að fá sér sæti FH-megin í stúkunni og þá ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að hefja leik.

Kl 15:40 Áhorfendur eru að týnast í salinn og ágæt stemning að myndast. Þó er enn nóg pláss fyrir fleiri áhorfendur í Kaplakrika.

Kl 14:45 FH hafnaði í öðru sæti í deildakeppninni en HK í því fjórða og þar af leiðandi á FH heimaleikjaréttinn en liðið er ríkjandi Íslandsmeistari. HK hefur aldrei orðið Íslandsmeistari. 

Mikið mæðir á Ólafi Bjarka Ragnarssyni í sóknarleik HK.
Mikið mæðir á Ólafi Bjarka Ragnarssyni í sóknarleik HK. Morgunblaðið/Ómar
Daníel Freyr Andrésson og Ólafur Gústafsson eru lykilmenn hjá FH.
Daníel Freyr Andrésson og Ólafur Gústafsson eru lykilmenn hjá FH. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert