Stella tryggði Fram oddaleik gegn Val

Frá viðureign Fram og Vals í Fram húsinu í kvöld.
Frá viðureign Fram og Vals í Fram húsinu í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stella Sigurðardóttir skoraði sigurmark Fram, 18:17, gegn Val þegar þrjár sekúndur voru eftir af fjórða leik liðanna í úrslitum N1-deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Leikurinn var ævintýralega spennandi en bæði lið spiluðu virkilega góðan handbolta. Stella var markahæst í liði Fram með 10 mörk en Þorgerður Anna og Karólína Lárusdóttir skoruðu báðar 4 mörk fyrir Val.

Leikurinn var í beinni textalýsingu hér á mbl.is og má sjá hana hér að neðan. Nánar verður svo fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is seinna í kvöld.

Bein textalýsing:

LEIK LOKIÐ FRAM VINNUR, 18:17. Stella skorar sigurmarkið þegar 3 sekúndur eru til leiksloka og allt verður tryllt í safamýrinni. Oddaleikur á laugardaginn.

55. mín Staðan er 16:16. Valur komst yfir, 14:16, en Fram jafnaði metin um hæl í 16:16. Þetta gæti alveg endað í framlengingu. Þvílíkur leikur.

49. mín Staðan er 14:15. Spennan er gífurleg og liðin skiptast á að hafa forustuna. Þorgerður Anna enn og aftur með mikilvægt mark, nú úr hraðaupphlaupi.

43. mín Staðan er 12:11. Þrjú mörk í röð frá Fram og heimastúlkur eru allt í einu komnar yfir.

37. mín Staðan er 9:11. Valur heldur frumkvæðinu en Framarar eru ekkert á því að gefast upp. Þorgerður Anna var að koma Val aftur í tveggja marka forustu.

31. mín Seinni hálfleikur er hafinn.

HÁLFLEIKUR Staðan er 7:8. Valur var kominn með þriggja marka forustu, 5:8, en tvö mörk frá Stellu undir lok hálfleiksins löguðu stöðuna fyrir Fram. Síðasta markið skoraði Stella beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn.

Mörk Fram: Stella Sigurðardóttir 4, Eísabet Gunnarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 7/1

Mörk Vals: Dagný Skúladóttir 2, Þorgerður Anna Atladóttir 2, Karólína Bæhrenz Lárusdóttir 2, Kristín Guðmundsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 6/1. 

26. mín Staðan er 5:6. Þorgerður Anna skorar gott mark og kemur Val yfir. 

21. mín Staðan er 5:5. Elísabet Gunnarsdóttir er búin að skora tvö mörk fyrir Fram en áfram er varnarleikurinn í fyrirrúmi hjá báðum liðum. 

15. mín Staðan er 3:4. Varnir beggja liða eru mjög sterkar. Stella var rekinn út af á 11. mínútu, fyrst allra í leiknum. Leikurinn er hraður og skemmtilegur en varnirnar og markverðirnir eru í aðalhlutverkum.

9. mín Staðan 1:1. Klaufagangur hjá báðum liðum í upphafi leiks. Boltinn búinn að syngja tvisvar í tréverkinu hjá Fram og Valskonur hafa misst boltann tvívegis. Varnirnar báðar sterkar.

4. mín Staðan er 1:1. Stella skorar fyrsta mark leiksins en Þorgerður svarar um leið. 

1. mín LEIKURINN ER HAFINN.

19.30 Verið er að kynna liðin til leiks. Þetta er alveg að byrja!

19.28 Það var verið að tilkynna að leikurinn hefst sex mínútum seinna en áætlað var. Þar sem RÚV ætlar loks að sýna heilan leik í þessu einvígi. 19.36 er því áætlað að leikurinn hefjist.

19.22 Vinni Fram í kvöld verður boðið upp á oddaleik í Vodafone-höllinni á laugardaginn. Um kvöldið verður svo lokahóf HSÍ.

19.20 Tapi Fram hér í kvöld verður það þriðja árið í röð sem liðið tapar fyrir Val í úrslitum. Það yrði aftur á móti fimmta árið í röð sem Fram fær silfrið á Íslandsmótinu því 2009 tapaði Fram fyrir Stjörnunni í lokaúrslitum og 2008 varð liðið í öðru sæti í deildinni þegar ekki var haldin úrslitakeppni.

19.15 Það er slatti af fólki nú þegar mætt í Safamýrina og röðin virðist vera löng. Í leik tvö þurfti að draga fram fleiri stúkur til að koma öllum fyrir. Vonandi verður það eins í kvöld.

19.05 Ef Fram ætlar að vinna þennan leik í kvöld verður Stella Sigurðardóttir, stórskytta liðsins, að spila eins og í tveimur fyrstu leikjununum. Hún skoraði 12 mörk í fyrsta leiknum að Hlíðarenda og 8 mörk í leik númer tvö. Í þriðja leiknum átti hún svo mjög erfitt uppdráttar og skoraði aðeins 2 mörk í 10 skotum. Það munar um minna fyrir Fram.

19.00 Sigurbjörg Jóhannsdóttir, leikstjórnandi Fram, var búin að fá nóg af músíkinni sem 500 kallinn Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri félagsins, hafði sett á fóninn. Hún tók því málin í sínar hendur og tengdi iPod-inn sinn við græjurnar. Nú geta Framstúlkur farið að hita upp almennilega.

18.56 Það er fjölskyldustemning hér í Safamýrinni og allir hjálpast að. Gunnar Bjarnason, yfirmaður hjá Vegagerðinni og faðir Ástu Birnu Gunnarsdóttur, fyrirliða Fram, stendur vaktina í dyrunum og passar að enginn fari inn án þess að borga.

18.52 Það er hætt við því að Fram eigi einfaldlega ekki meira á tanknum í kvöld en Valskonur hafa keyrt á mun fleiri leikmönnum í þessu einvígi. Leikur þrjú sem Valur vann nokkuð auðveldlega bar þess merki að Framkonur væru orðnar nokkuð þreyttar. Þær hafa þó væntanlega engan áhuga á því að láta erkifjendur sína lyfta Íslandsmeistaratitilinum á þeirra eigin heimavelli.

18.45 Velkomin í beina textalýsingu frá fjórða leik Vals og Fram í lokaúrslitum N1-deildar kvenna í handbolta. Staðan er einföld hér í kvöld. Vinni Valskonur verða þær Íslandsmeistarar þriðja árið í röð.

Lið Fram: Guðrún Ósk Maríasdóttir, Karen Ösp Guðbjartsdóttir - Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir, Karólína Vilborg Torfadóttir, Hekla Rún Ámundadóttir, Marte Sördal, Stella Sigurðardóttir, Anett Köbli, Ásta Birna Gunnarsdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir, Sunna Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, María Karlsdóttir, Steinunn Björnsdóttir.

Lið Vals: Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Sunneva Einarsdóttir - Ágústa Edda Björnsdóttir, Rebekka Rut Skúladóttir, Hildur Marín Andrésdóttir, Karólína Bæhrenz Lárusdóttir, Aðalheiður Hreinsdóttir, Dagný Skúladóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Þorgerður Anna Atladóttir, Ragnheiður Rósa Guðmundsdóttir.

Hart barist í leik Vals og Fram.
Hart barist í leik Vals og Fram. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert