Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tekur ekki þátt í lokakeppni EM í Hollandi í desember. Það varð ljóst eftir að Úkraína vann Ísland, 22:20, í lokaleik þjóðanna í 7. riðli undankeppninnar í Zaporzhye í Úkraínu í dag.
Úkraínska liðið varð þar með í efsta sæti riðilsins með 10 stig, Spánn með átta en Ísland sex og Sviss ekkert.
Úkraína var yfir í leiknum frá upphafi til enda. Íslenska liðið lék afar illa í sókninni og gerði ótrúlegan fjölda mistaka sem reyndust afar dýr þegar upp var staðið. Langbesti leikmaður íslenska liðsins var Guðný Jenný Ásmundsdóttir markvörður. Hún varði 21 skot, þar af tvö vítaköst. Flestir aðrir leikmenn íslenska landsliðsins léku undir getu og sumir voru ekki nema skugginn af sjálfum sér.
Mörk Íslands: Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 4, Karen Knútsdóttir 4/1, Dagný Skúladóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 21/2 (þar af 6 til mótherja). Guðrún Ósk Maríasdóttir 3.
Utan vallar: 10 mínútur.
Viktoria Boirschenko var markahæst hjá Úkraínu með 4 mörk. Olga Nikolayenki og Ilina Managarova skoruðu þrjú mörk hvor.
Natalya Parkhomenko varði 14 skot í marki úkraínska liðsins.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.
55. Karen skorar 18. mark Íslands eftir hraðaupphlaup en það munar enn tveimur mörkum á liðunum og harla ósennilegt að íslenska liðið vinni leikinn með þriggja marka mun eins og þörf er á til þess að komast á EM.
49. Ágúst landsliðsþjálfari tekur leikhlé. Staðan er 19:16, fyrir Úkraínu. Íslenska liðið hefur farið illa að ráði sínu síðustu 10 mínútur í sóknarleiknum og því ekki náð að jafna leikinn, eins og möguleiki hefur verið á.
46. Loksins kom mark í leikinn eftir margar mínútur án marks á báða bóga. Íslenska liðið hafði fengið þrjá möguleika á að minnka í eitt mark áður en Karen skoraði af harðfylgi eftir gegnumbrot. Staðan er 17:16, fyrir Úkraínu.
42. Guðný Jenný varði vítakast í stöðunni 17:15. Dagný er utan vallar í tvær mínútur.
40. Stella Sigurðardóttir skorar 15. mark Íslands eftir hraðaupphlaup. Hún fékk högg á andlitið og er verið að huga að henni. Væntanlega ekki alvarlegt. Úkraínska liðið missti leikmanna af velli í tvær mínútur fyrir brotið.
35. Hrafnhildur var að skora þriðja mark sitt í leiknum og 13. mark Íslands, staðan er 16:14, og Ísland var að vinna boltann og getur minnkað muninn í tvö mörk.
34. Rut skorar fyrsta mark síðari hálfleiks af miklu harðfylgi. Staðan er 15:12, fyrir Úkraínu sem hefur brugðist bogalistinn í einu vítakasti í byrjun hálfleiksins.
31. Síðari hálfleikur hafinn. Úkraína byrjar í sókn og Sunna Jónsdóttir fær strax tveggja mínútna brottvísun.
30. Úkraínska liðið náði að skora síðasta mark fyrri hálfleiks eftir hraðaupphlaup en áður hafði skot Stellu Sigurðardóttur hafnað í höndum markvarðar Úkraínu og í markslánni. Staðan 15:11 í hálfleik og ljóst að íslenska landsliðið þarf að leika mikið betur, bæði í vörn og sókn í síðari hálfleik til þess að snúa taflinu sér í hag. Sérstaklega þarf að fækka sóknarmistökum sem voru alltof margir á fyrstu 20 mínútum leiksins.
28. Íslenska liðið hefur átt góðan kafla síðustu mínútur og minnkað muninn úr sex mörkum niður í þrjú, 14:11, eftir mark frá Önnu Úrsúlu af línunni eftir flotta sendingu frá Rut.
26. Hrafnhildur Ósk var að minnka muninn í fimm mörk, 13:8. Dagný systir hennar bætir við öðru marki í framhaldinu eftir hraðaupphlaup og markvörslu Guðrúnar. Staðan nú, 13:9.
23. Það er á brattann að sækja hjá íslenska landsliðinu um þessar mundir. Úkraína hefur náð fimm marka forskot, 11:6. Sóknarleikur íslenska liðsins hefur verið í molum og hver mistökin rekið önnur. Stemningu vantar í vörnina. Guðrún Ósk Maríasdóttir hefur skipt við Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttur í markinu.
19. Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari, tekur leikhlé til að stappa stálinu í sína leikmenn sem hafa farið illa að ráði sínu í sóknarleiknum fram til þessa. Varnarleikurinn hefur hinsvegar verið í lagi gegn þunglamalegum og löngum sóknum úkraínska liðsins. Staðan er 8:5, fyrir Úkraínu.
15. Stundarfjórðungur liðinn af fyrri hálfleik og Úkraína er með tveggja marka forskot, 7:5. Sóknarleikurinn er sem fyrr slakur hjá íslenska liðinu. Mikið er um mistök.
12. Úkraína er marki yfir, 5:4. Sóknarleikur Íslands verið þungur og illa gengið að opna vörn heimaliðsins.
9. Karen Knútsdóttir var að jafna metin í 4:4, úr vítakasti sem Anna Úrsúla Guðmundsdóttir vann.
6. Úkraína yfir, 3:2. Verið var að vísa Stellu Sigurðardóttur af leikvelli í tvær mínútur fyrir afar litlar sakir. Guðný Jenný varði skot í framhaldinu og íslenska liðið hefur sókn.
2. Úkraína hefur skorað tvö mörk í röð. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði vítakasti á fyrstu mínútu. Eftir það hafa tvær sóknir Íslands runnið út í sandinn en þeim hefur verið svarað með mörkum hinum megin vallarins.
1. Rut Jónsdóttir skorar fyrsta mark leiksins fyrir Íslendinga úr fyrstu sókn leiksins.
Liðin standa jöfn í öðru sæti riðilsins og berjast því í dag um að fylgja Spánverjum eftir úr riðlinum og í lokakeppnina sem fram fer í Hollandi í desember. Íslenska landsliðið þarf að vinna með a.m.k. þriggja marka mun til þess að tryggja sér farseðilinn á EM.
Úkraína vann fyrri leikinn sem fram fór hér á landi í vetur, 21:20.