Íslenska karlalandsliðið í handknattleik fer með fjórtán marka forskot í seinni umspilsleikinn við Holland ytra að viku liðinni um sæti á HM eftir stórsigur í Laugardalshöll í kvöld, 41:27.
Íslandi gekk illa að hrista gestina af sér lengi framan af leik og þegar 22 mínútur voru til leiksloka munaði aðeins einu marki, 21:20. Þá hrukku strákarnir okkar hins vegar í gang og gerðu svo að segja út um einvígið.
Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur með 10 mörk, þar af 7 úr vítum, en Aron Pálmarsson skoraði 8.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
59. (39:27) Ísland tekur leikhlé. Ein og hálf mínúta eftir. Alexander var að skora sitt sjötta mark.
54. (35:25) Munurinn orðinn 10 mörk. Bjarki Már var að skora sitt fjórða mark úr hraðaupphlaupi eftir glæsilega sendingu Björgvins Páls.
52. (32:24) Öruggur sigur í uppsiglingu og ágætis veganesti í seinni leikinn úti í Hollandi eftir viku. Hollendingar hafa samt ekkert gefist upp. Aron Pálmarsson var að skora sitt sjötta mark.
47. (28:22) Hollendingar taka leikhlé. Björgvin Páll er kominn aftur í markið hjá Íslandi. Snorri Steinn er markahæstur með 9 mörk en hann hefur nýtt öll 6 vítaköst sín. Alexander Petersson var að skora sitt fjórða mark úr hraðaupphlaupi.
45. (26:20) Jæja, nú líður manni betur. Hollendingarnir hafa verið að lenda í vandræðum með brottvísanir og Íslendingar nýtt sér það til að ná sex marka forystu.
38. (21:20) Seinni hálfleikur byrjar illa eins og sá fyrri. Íslenska liðið er í raun að spila afleitlega. Bjarki Már stendur þó ágætlega fyrir sínu í fjarveru Guðjóns Vals og er kominn með þrjú mörk.
30. Hálfleikur. (17:14) Hollendingar minnkuðu muninn í tvö mörk eftir leikhléið áður en Snorri Steinn skoraði sitt sjötta mark úr víti í lok hálfleiksins. Hann er markahæstur hjá Íslandi en Aron, Alexander og Róbert hafa skorað 2. Hreiðar Levý varði 7 skot eftir að hann kom inná í stað Björgvins Páls.
27. (15:11) Hollendingar taka leikhlé. Það væri vel af sér vikið að fara með fimm marka forskot inn í hálfleik eftir vandræðaganginn í byrjun leiks.
25. (13:10) Þórir var að koma inná fyrir Ólaf Stefánsson sem hvílir næstu mínútur. Alexander kemur þá í skyttustöðuna og hann var ekki lengi að nýta sér það og skoraði. Nú er vonandi að munurinn fari að aukast jafnt og þétt.
19. (9:8) Arnór Atlason var að koma inná í fyrsta sinn í leiknum og leysir af Aron Pálmarsson.
18. (9:8) Ísland verst betur núna og Hreiðar Levý er farinn að verja í markinu, kominn með fjögur skot. Hins vegar er of mikið fát í hröðum sóknum íslenska liðsins. Ísland komst í fyrsta sinn yfir í leiknum í stöðunni 8:7 og er með forystuna.
12. (7:7) Aron var að jafna metin með þrumuskoti. Guðmundur þjálfari lét þá Vigni og Ingimund, sem standa í miðri vörn Íslands, heyra það á bekknum á meðan Ísland sótti.
9. (4:6) Mark Bult, lærisveinn Dags Sigurðssonar, var að skora sitt þriðja mark fyrir gestina. Hreiðar Levý Guðmundsson er kominn inná í markið. Björgvin Páll var ekki búinn að verja skot.
5. (1:3) Slæm byrjun hjá Íslandi. Hollendingar skora heldur auðveldlega og Gerrie Eijlers er búinn að verja tvívegis vel.
2. (1:1) Holland skoraði úr fyrstu sókn sinni en Aron svaraði að bragði.
1. Þá er leikur hafinn. Íslenska liðið hefur lagt mikið upp úr því að ekki megi vanmeta þá hollensku og virðist vel klárt í slaginn. Vörnina í byrjun skipa Bjarki Már, Aron, Vignir, Ingimundur, Alexander og Ólafur. Björgvin er í markinu.
0. Íslensku leikmennirnir fengu góðar mótttökur. Nú fáum við þjóðsöngvana og svo má ballið byrja.
0. Hollendingar eru komnir inn á völlinn í sínum hvítu og svörtu búningum. Þeim er vel tekið af íslensku áhorfendunum.
0. Hollenska landsliðið er ekki hátt skrifað enda hefur það aldrei komist í úrslitakeppni stórmóts. Í liðinu eru þó sjö leikmenn sem spila í Þýskalandi, þar af fjórir í efstu deild. Þetta eru markvörðurinn Daniel Gerrie Eijlers, sem leikur með Björgvini Páli í Magdeburg, Time Remer og Nick Verjans sem leika með Lübbecke, og svo sá þekktasti en það er skyttan Mark BUlt sem leikur hjá Füchse Berlin undir stjórn Dags Sigurðssonar.
0. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Sverre Jakobsson eru ekki með íslenska liðinu í leikjunum við Holland. Ásgeir Örn af persónulegum ástæðum en Sverre vegna meiðsla.
0. Eins og greint var frá fyrr í dag á Guðjón Valur Sigurðsson við meiðsli í kálfa að stríða og leikur því ekki í dag. Guðmundur Guðmundsson þjálfari kaus einnig að velja ekki þá Arnór Þór Gunnarsson, Sigurgeir Árna Ægisson og Aron Rafn Eðvarðsson markvörð í hópinn fyrir þennan leik en þeir eru allir í 20 manna æfingahópi sem valinn var á dögunum.
Lið Íslands:
Markmenn:
Björgvin Páll Gústavsson, Magdeburg
Hreiðar Levý Guðmundsson, Nötteröy
Aðrir leikmenn:
Alexander Petersson, Füchse Berlin
Arnór Atlason, AG Köbenhavn
Aron Pálmarsson, Kiel
Bjarki Már Elísson, HK
Ingimundur Ingimundarson, Fram
Kári Kristján Kristjánsson, Wetzlar
Ólafur Gústafsson, FH
Ólafur Bjarki Ragnarsson, HK
Ólafur I. Stefánsson, AG Köbenhavn
Róbert Gunnarsson, Rhein-Neckar Löwen
Rúnar Kárason, Grosswallstadt
Snorri Steinn Guðjónsson, AG Köbenhavn
Vignir Svavarsson, Hannover-Burgdorf
Þórir Ólafsson, KS Vive Targi Kielce