Nilsen hættur hjá AG Köbenhavn

Jesper Nielsen.
Jesper Nielsen. reuters

Jesper Nielsen, aðaleigandi danska meistaraliðsins í handknattleik, AG Köbenhavn, hefur ákveðið að hætta sem stjórnarformaður félagsins. Um leið hefur hann og fjölskylda ákveðið að setja allan eignarhlut í sölu.

Síðustu daga hafa danskir fjölmiðlar, þá einkum Ekstrabladet, greint frá afar bágri stöðu AG sem þrátt fyrir miklar tekjur er rekið með gríðarlegu tapi svo nemur nokkur hundruð milljónum króna á ársgrundvelli.

Nielsen segir m.a. í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins, sem birtist fyrir stundu, að það sé ekki síst vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum um sig og fjölskylduna, sem ákvörðun hefur verið tekin að draga sig út úr rekstri AG og selja hann allan eins fljótt og kostur er á.

Í gær var síðan sagt frá því að þýska handknattleiksliðið Rhein-Neckar Löwen hefði leyst til sín glæsihýsi Nielsens á Kanaríeyjum, en húsið mun Nielsen hafa veðsett í skuldauppgjöri sínu við Löwen í vetur. Hann var um nokkurra ára skeið meirihlutaeigandi að Rhein-Neckar Löwen.

Nielsen hefur byggt upp viðskiptaveldi sitt og fjölskyldunnar í kringum skartgripaverslanirnar Pandora, sem  hafa útibú víða um Evrópu.  Rekstur Pandora hefur ekki gengið sem skyldi síðustu árin og hlutabréf fyrirtækisins fallið talsvert.

Þrír íslenskir handknattleiksmenn eru á samningi hjá AG Köbenhavn, Arnór Atlason, Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson. Arnór og Snorri endurnýjuðu samninga sína á síðasta vetri. Arnór til tveggja ára og Snorri til eins ár. Samningur Ólafs við AG er runninn út eða við það að renna út.  Óvíst er á þessari stundu hvaða áhrif tilkynning Nielsens hefur á framtíð þeirra og félagsins á þessari stundu.

Guðjón Valur Sigurðsson lék einnig með AG á nýliðinni leiktíð en ákvað eftir áramótin að skipta yfir til þýska meistaraliðsins Kiel í sumar.

AG Köbenhavn hefur orðið danskur meistari  og bikarmeistari í handknattleik tvö síðustu árin. Í vor komst liðið í undanúrslit í Meistaradeild Evrópu og tapaði naumlega fyrir Atlético Madrid í undanúrslitum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka